Geyma mosa og bera súrmjólk á

Starfsmenn Orkuveitunnar og björgunarsveitarmenn bjarga mosa á Hellisheiði í tengslum …
Starfsmenn Orkuveitunnar og björgunarsveitarmenn bjarga mosa á Hellisheiði í tengslum við framkvæmdir við gufulögn frá Hverahlíð. Ljósmyndari Magnea Magnúsdóttir/ON

Framkvæmdir við gufulögn frá borholum í Hverahlíð niður til Hellisheiðarvirkjunar hófust í byrjun október á því að starfsmenn Orkuveitunnar og hjálparsveitarmenn skófu upp mosa sem notaður verður til að græða upp svæðið sem raskast við framkvæmdirnar.

„Við byrjuðum á að smala þarna upp eftir starfsfólki og hjálparsveitarmönnum til að bjarga mosaþembum sem við ætlum að nota til þess að bæta rask sem verður á lagnaleiðinni og annars staðar á svæðinu. Við erum því með slatta af mosa í frystigámi,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar.

Síðustu ár hefur Orkuveitan verið með sérstakan landgræðslustjóra við Hellisheiðarvirkjun sem hefur stýrt landbótaaðgerðum. Þar segir Eiríkur að notaðar hafi verið aðferðir til að græða upp land sem hefur verið raskað með gróðri sem er á staðnum. Því sé mikilvægt að varðveita mosa og annan gróður sem annars fer til spillis við framkvæmdir. Oftast séu notaðar vélar við slíka vinnu en á sumum svæðum sé yfirborðið of óslétt og þá var gripið til þess ráðs að bjóða björgunarsveitum í mosasöfnun í fjáröflunarskyni. Mikilvægt sé að nota réttar uppgræðsluaðferðir og stundum séu þær nokkuð óvenjulegar. Súrmjólk kemur þar meðal annars við sögu.

„Henni er blandað við mosann til að klístra hann við undirlagið, gera það stöðugra og auka næringu. Það hefur verið áhugavert að sjá hversu vel hefur tekist til víða og hversu hratt þessi harðgeri heiðagróður tekur við sér með smáaðstoð,“ segir Eiríkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert