Hótel Sigló opnar 1. júní

Framkvæmdum við byggingu hótelsins miðar vel, eins og sjá má …
Framkvæmdum við byggingu hótelsins miðar vel, eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var á mánudag. Ljósmynd/Sveinn Þorsteinsson

„Verkið gengur vel og er nokkurn veginn á áætlun. Hótelið mun opna formlega 1. júní og þá á allt saman að vera tilbúið,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson, verkefnisstjóri hjá Rauðku á Siglufirði. Þar standa nú yfir framkvæmdir við byggingu Hótels Sigló sem opnað verður næsta sumar. Finnur segir nú þegar orðið þokkalega vel bókað inn í sumarið og vel fram á næsta haust. „Við erum mjög bjartsýn.“

Hótelið er reist út í smábátahöfnina á Siglufirði, og í allri hönnun hefur verið leitast eftir að skapa mikla sérstöðu í upplifun fyrir hótelgesti. Herbergin þar verða alls 68 og mun hvert herbergi taka 2-3 gesti. Byggingin, sem er á tveimur hæðum, er alls um 3.400 fermetrar. Framkvæmdum, sem iðnaðarmenn úr Fjallabyggð og frá Dalvík hafa með höndum, miðar ágætlega, en áætlaður kostnaður við þetta verkefni er um 1,3 milljarðar króna.

Það er Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson fjárfestir sem stendur að verkefninu. Á hans vegum voru á sínum tíma undir merkjum Rauðku ehf. byggingar á hafnarsvæðinu á Siglufirði endurgerðar, þar sem í dag eru veitingastaðirnir Hannes Boy og Kaffi Rauðka. Rekstur þar hófst árið 2011 og er góður gangur í starfseminni. Það er Selvík, systurfélag Rauðku, sem stendur að byggingu hótelsins. 

„Mun hjálpa ferðaþjónustu á Tröllaskaga öllum“

Ferðamönnum sem koma til Siglufjarðar hefur fjölgað mikið á síðustu árum, og er talið að um 40-50 þúsund ferðamenn komi þangað á ári hverju. Það helst í hendur við betri samgöngur um Héðinsfjarðargöng og svo almenna uppbyggingu í ferðaþjónustu. Þá hefur vetrargestum fjölgað mikið, til dæmis í tengslum við skíðasport.

„Við finnum það klárlega að það er skortur á gistirými hér á svæðinu, sérstaklega í ljósi þess að með bættum samgöngum hefur eftirspurnin aukist mikið,“ segir Finnur. „Við teljum að þetta muni hjálpa ferðaþjónustu á Tröllaskaga öllum. Nú þegar finnum við fyrir áhuga og aðsókn stórra ferðaþjónustuaðila sem ekki höfðu mikil umsvif á svæðinu fyrir.“

Finnur segir hótelið aðallega hafa tekið við bókunum frá ferðaþjónustufyrirtækjum til þessa, en í lok næstu viku verði þó formlega byrjað að taka við bókunum einstaklinga og annarra aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert