Ræða þarf framtíðarhlutverk RÚV

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Komið er að þeim tímapunkti að taka þarf ákvarðanir um framtíð Ríkisútvarpsins og með hvaða hætti vilji er til þess að sjá það þróast. Þetta sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um fjárhagsstöðu þesss. Vandi félagsins væri fyrst og fremst yfirskuldsetning og sagðist hann telja að stjórn félagsins væri að taka rétt á málum meðal annars með áformum um sölu eigna.

Málshefjandi var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Sagði hann ljóst að það hentaði ekki Ríkisútvarpinu að vera rekið sem opinbert hlutafélag eins og staðan væri í dag. Þá hefðu það verið mistök þegar ákveðið hafi verið að láta lífeyrisskuldbindingar félagsins fylgja þegar rekstrarfyrirkomulaginu var breytt með þeim hætti. Þær væru að fyrst og fremst að sliga Ríkisútvarpið en ekki dagskrárgerðin. Sagði Árni lausn málsins einkum felast í því að útvarpsgjaldið rynni óskert til félagsins og að tryggt væri að félagið gæti gert áætlanir fram í tímann.

Ráðherrann sagði hugsanlegan hluta lausnar á málinu að endurhugsa fyrirkomulag lífeyrisskuldbindinga starfsmanna Ríkisútvarpsins. Sagðist Illugi ennfremur hafa haft sínar efasemdir um kosti opinberra hlutafélags sem rekstrarfyrirkomulags. „Ég er þeirrar skoðunar að í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er hjá Ríkisútvarpinu þurfi menn um leið að horfa til þess hvaða hlutverk og hvaða verkefni það eru sem Ríkisútvarpið á að sinna. Það verður auðvitað að fara saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert