Stefnir í verkfall lækna á mánudag

mbl.is/Eggert

Samningafundi Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins, sem fór fram í Karphúsinu síðdegis í dag, lauk án niðurstöðu. Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður eftir helgi og er því ljóst að læknar munu að óbreyttu hefja verkfall á mánudag. Vonbrigði segir formaður Læknafélagsins.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir í samtali við mbl.is, að fundurinn hafi staðið í um 40 mínútur, en hann hófst kl. 15 í dag.

„Það gerðist raunverulega ekki neitt. Það verður þá væntanlega verkfall á mánudag, en það hefur enginn samningafundur verið boðaður fyrr en klukkan 16 á mánudag - en þá er einn verkfallsdagur búinn þannig séð,“ segir Þorbjörn og bætir að enn beri mikið í milli samningsaðila.

„Það þokaðist ekkert í þessum málum sem við teljum vera mikilvæg. Það eru ákveðin skilaboð í því ef sáttasemjari telur ekki ástæðu til að funda fyrr en mánudaginn, þegar verkfallið er hafið,“ segir hann ennfremur.

„Þetta eru auðvitað vonbrigði að það hafi ekki tekist að nýta tímann betur undanfarnar vikur, því þetta hefur legið fyrir lengi,“ segir Þorbjörn. Læknafélagið hefur setið tvo fundi í húsi Ríkissáttasemjara í þessari viku með samninganefnd ríkisins og einnig voru tveir fundir í síðustu viku.

Fyrsta sinn sem læknar boða til verkfalls

Fyrr í þessum mánuði voru verkfallsaðgerðir samþykktar í atkvæðagreiðslu hjá Læknafélaginu. Yfir 80% af atkvæðisbærum læknum tók þátt í kosningunni og yfir 95% þeirra samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Alls tóku 728 læknar þátt í atkvæðagreiðslunni og samþykktu 699 þeirra tillögu stjórnar félagsins um boðun vinnustöðvunar.

Þetta er í fyrsta sinn sem læknar á Íslandi, sem fengu takmarkaðan verkfallsrétt fyrir tæpum 30 árum, boða til verkfalls. 

Þorbjörn hefur sagt, að verkfall lækna snúist ekki eingöngu um kjör lækna heldur framtíð heilbrigðisþjónstu á Íslandi. Læknum sé það ekki ljúft að standa í þessum sporum en það skipti máli að í þessum kjarasamningum náist fram breytingar sem hindra frekari atgervisflótta lækna og tryggja samkeppnishæfni landsins. Með órofa samstöðu geti læknar sent sterk og skýr skilaboð til ráðamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert