Alfredo Cramerotti sýningarstjóri Sequences 

Alfredo Cramerotti
Alfredo Cramerotti

Alfredo Cramerotti hefur verið valinn til að sýningarstýra sjöundu Sequences-myndlistarhátíðinni sem fram fer í Reykjavík 10.-19. apríl 2015.

Sequences er alþjóðlegur myndlistartvíæringur og er eina hátíðin á Íslandi sem sérhæfir sig í myndlist, samkvæmt því sem aðstandendur hans segja í fréttatilkynningu.

„Alfredo Cramerotti er reyndur sýningarstjóri og rithöfundur og hefur fengist við fjölbreytt verkefni á sviði myndlistar. Árið 2010 var hann einn sýningarstjóra evrópska samtímalistatvíæringsins Manifesta 8 sem fram fór á Spáni, 2013 stýrði hann þjóðarskála Maldív-eyja sem og skála Wales á Feneyjatvíæringnum í myndlist og hlaut mikið lof fyrir og nú gegnir hann stöðu forstöðumanns MOSTYN, stærstu samtímaliststofnunar Wales. Edda Kristín Sigurjónsdóttir verður aðstoðarsýningarstjóri hátíðarinnar og Edda Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hátíðarinnar,“ segir í fréttatilkynningu.

Um 25 íslenskir og erlendir myndlistarmenn munu taka þátt í hátíðinni sem fer fram á sýningarstöðum víðs vegar um Reykjavíkurborg og í almenningsrýmum. Líkt og á síðustu Sequences-hátíð verður sérstök utandagskrá kynnt samhliða aðaldagskránni en á síðustu hátíð voru sýnd verk Matthews Barneys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert