Ályktun um ofurlaun samþykkt

Ályktun um ofurlaun í fyrirtækjum var samþykkt á 41. þingi …
Ályktun um ofurlaun í fyrirtækjum var samþykkt á 41. þingi ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með því að skerpa á og framfylgja eigendastefnu sinni geta lífeyrissjóðir kosið að fjárfesta ekki í fyrirtækjum þar sem laun æðstu stjórnenda misbjóða siðferðisvitund alls almennings. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ályktun 41. þings Alþýðusambands Íslands um launakjör stjórnenda.

Í ályktuninni kemur fram að launabil í samfélaginu hafi breikkað á síðustu árum en laun og bónusar stjórnenda fjölmargra fyrirtækja séu orðnir gríðarlega háir og úr samhengi við það samfélag sem við búum í. Á það geti verkalýðshreyfingin aldrei fallist.

Mikilvægt sé að lífeyrissjóðirnir séu ábyrgir hluthafar en þeir séu stórir eigendur í fjölmörgum fyrirtækjum. Þannig geti þeir tekið ákvörðun um að fjárfesta ekki í fyrirtækjum þar sem laun æðstu stjórnenda eru það há að þau misbjóði siðferðisvitund alls almennings. Þessu verkfæri hafi sjóðirnir beitt og ættu þeir að gera það í auknum mæli.

Því ályktuðu þingfulltrúar að lífeyrissjóðir launafólks ættu að yfirfara og skerpa á eigendastefnum sínum þannig að sjóðirnir verði betur í stakk búnir til að bregðast við ofurlaunum æðstu stjórnenda fyrirtækja. Þeir fylgi stefnunum fast eftir og kynni þær opinberlega þannig að stjórnum fyrirtækja á markaði megi vera ljóst að sjóðirnir muni ekki fjárfesta í fyrirtækjum þar sem ofurlaun viðgangast. 

Þá eigi ASÍ að hvetja fyrirtæki til þess að setja sér opinbera stefnu um launakjör æðstu stjórnenda til þess að lífeyrissjóðir geti metið mögulega fjárfestingakosti sína í samræmi við eigendastefnur sínar og siðareglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert