Gamall draumur að rætast

Gabríela Friðriksdóttir, listakona.
Gabríela Friðriksdóttir, listakona. Kristinn Ingvarsson

Hún var mjög pólitískur krakki og ætlaði sér að verða forsætisráðherra, þar til hún áttaði sig á því að erfitt væri að breyta skoðunum annarra. Listakonan Gabríela Friðriksdóttir fer sínar eigin leiðir. „Ég ætlaði hins vegar ekki að vera alþingismaður eða neitt slíkt, bara forsætisráðherra strax. Og alls ekki forseti, því ég var búin að komast að því að forsætisráðherra réði öllu,“ segir Gabríela og hlær. Listin náði þó fljótt yfirhendinni enda talsvert auðveldara að móta leir og önnur efni frekar en skoðanir fólks. „Síðan þá hef ég aldrei gert neitt annað en að búa til list. Það hentar mér mjög vel og ég hef getað lifað á því. Það er bara ég.“

Gabríela stendur nú á tímamótum en hún vinnur nú að handriti að kvikmynd í fullri lengd ásamt frönskum kvikmyndagerðarmanni, Pierre-Alain Giraud. Hún segir verkefnið vera gamlan draum að rætast. „Kvikmyndin er mikil handverksmynd og verður afar sérstök. Þetta verður leikin mynd í fullri lengd en fer einnig út í teikningu og skúlptúr eða animation og stop animation. Sagan er að mestu leyti komin en nú erum við að setja kjötið á beinin. Þetta er nokkuð sem mig hefur alltaf langað til að gera.“

Eitt af stærri verkefnum Gabríelu, Crepusculum, var opnað í Schirn Kunsthalle í Frankfurt árið 2011. Það hefur ferðast víða um heim síðan þá og stefnir hingað til lands á næsta ári og verður til sýnis í Listasafni Íslands en Gabríela hefur ekki verið með sýningu hér á landi í um átta ár. Sýningin verður hluti af Listahátíð í Reykjavík sem hefst í maí og ber yfirskriftina Saga - þegar listin segir frá. „Mig hefur lengi langað að sýna Crepusculum hér á landi. Sýningin er margvísleg. Þetta er pólýfónía eða margradda sýning. Það verður gaman að setja þennan risastóra skúlptúr upp í Listasafni Íslands.“

Verk Gabríelu geta virst drungaleg og útskýrir hún að það sé líklega hið hráa og áferðarmikla í verkunum sem hafi þau áhrif á fólk og einnig sú staðreynd að hún heillist af mjög frumstæðri list, sem oft á tíðum er afar beinskeytt og framandi.

„Ég hef alltaf verið heilluð af ýmiss konar symbolisma og gömlum andlegum kerfum. Þegar ég fer að lesa um ýmsar goðsagnir og því tengt opnast einhverjar gáttir,“ segir Gabríela. „Ég viðurkenni að ég er ansi heilluð af þessum gömlu andlegu kerfum en reyni að uppfæra yfir í nútímann. Ég vil tengja gamalt og nýtt og þannig búa til möguleika.“

Gabríela er í ítarlegu og skemmtilegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins sem kemur út um helgina.

Gabríela vinnur nú að leikinni kvikmynd í fullri lengd.
Gabríela vinnur nú að leikinni kvikmynd í fullri lengd. Kristinn Ingvarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert