Hrútar verða þuklaðir í borg óttans

mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Nú er sú árstíð sem sauðfé er þuklað hvað mest í landinu, enda haustin tími hrútasýninga og þá velja bændur líka líflömbin. Í þuklinu er leitað eftir því eftirsóknarverðasta, miklum vöðvum, hóflegri fitu og þéttvöxnum og löngum skrokk. Á morgun gefst borgarbúum tækifæri til að fá nasaþefinn af þuklinu því nokkrir hrútar mæta til leiks á KEX-þukl sem haldið verður í porti í 101 Reykjavík.

Rúningskeppnin sem við héldum hér á Kexinu í vor lukkaðist svo vel, að við ákváðum að halda áfram á þessari braut og blása til hrútaþuklskeppni núna,“ segir Böðvar E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Kexlands á KEX hosteli í Reykjavík, um Kexþukl sem haldið verður þar á morgun, laugardag, en þar verða hrútar þuklaðir. „Við viljum með þessu færa sveitina í borgina, fyrir þá sem ekki komast í sveitina. Við erum að kynna borgarbörnunum ræturnar, leyfa þeim að fá smá nasaþef og kynnast svona fyrirbærum landbúnaðar eins og hrútaþukli. Við etjum saman vönum þuklurum og alls óvönum, þeir óvönu sem taka þátt í þuklinu eru vinir okkar hér úr Vitahverfinu, Guðmundur Jörundsson fatahönnuður, Bjarni Snæðingur og hjónin Magni og Hugrún í KronKron. Okkur fannst vel við hæfi að þetta fatafólk tæki þátt í að þukla skepnurnar. Það verður skemmtilegt að fá átta hrúta í heimsókn hér á Kexið, þeir eru frá Hraðastöðum í Mosfellsdal, sama bóndabæ og við fengum kindur frá í rúningskeppnina. Við ætlum ekkert að skemma hrútana hér í borg óttans, það verður farið strax með þá aftur í sveitina að keppni lokinni. Þeir verða eflaust alveg guðs lifandi fegnir að komast aftur heim til sín úr borgarskarkalanum.“

Hefur alræðisvald

Eyþór Einarsson, bóndi og ráðunautur, sem býr með sauðfé í Sólheimagerði norður í Skagafirði, verður æðsti dómari í Kex-þuklinu og hann segist hlakka til samkomunnar. „Það er mjög jákvætt að hafa svona samkomu í Reykjavík, ég lít á þetta sem fræðandi viðburð og skemmtun sem eflir tengslin milli borgar og sveitar. Mér skilst að ég hafi alræðisvald í dómarahlutverkinu í höfuðborginni á morgun, en fyrirkomulagið verður þannig að sýndir verða fjórir til fimm hrútar sem fyrst verða dæmdir af þjálfuðum dómurum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og þeim raðað eftir gæðum. Síðan munu nokkrir valinnkunnir einstaklingar keppa í því að raða þeim upp í sömu gæðaröð. Þar á eftir mun gestum og gangandi gefast tækifæri til þess að skoða gripina.“ Eyþór segir að bændur þukli lömb sín þegar þeir velja gripi til ásetnings. Sauðfjárráðunautar veita bændum þessa þjónustu og þeir geri það út frá kjötgæðaeiginleikum og heilbrigði.

„Þuklið gengur út á að finna vöðvafyllingu á gripunum, við þuklum allt lambið því það er verið að vinna í því að bæta alla parta skrokksins. Við metum háls og herðar, bringu og útlögur, bak, malir og læri. Við skoðum líka haus, fætur og eistu með tilliti til heilbrigðis og síðan metum við ullina. Okkur til halds og trausts notum við ómmælingartæknina til að mæla vöðvaþykkt og fituþykkt á baki gripanna.“ Eyþór segir algengustu galla á haus vera bitgalla, yfirbit eða undirbit, en einnig er skoðað hvort þeir séu illa hyrntir. „Við viljum ekki hafa hnýfla eða horn sem geta vaxið beint inn í haus. Hausinn er ekki dæmdur eftir fríðleika, en það var tekið tillit til þess hér áður fyrr, til dæmis þótti það gott ef hrútur var þróttlegur á svip. Eistun eiga svo að vera eðlilega þroskuð, algengasti eistnagalli felst í að annað eða bæði eistu séu ekki komin niður eða séu of lítil; það er alltaf eitthvað um eineistinga.“

Eyþór segir að áherslur hafi breyst í gegnum tíðina í byggingu sauðfjár. „Nú er leitað eftir gripum sem eru vöðvamiklir en með hóflega fitu. Við viljum hafa lömbin þéttvaxin en jafnframt langvaxin, þannig að skrokkurinn sé vel holdfylltur, hæfilega feitur og lambið sé bráðþroska og heilbrigt.“

Kexland og Landssamband sauðfjárbænda standa að KEXþukli sem fram fer á Kex Hosteli Skúlagötu 28 í Reykjavík, á morgun kl. 16.15. 

Boðið verður upp á KEX-kjötsúpa meðan á keppni stendur, til að gestir geti haldið á sér hita á fyrsta degi vetrar.

Sigurfinnur Bjarkarson frá Tóftum þuklar hér á eistum og lærum
Sigurfinnur Bjarkarson frá Tóftum þuklar hér á eistum og lærum
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert