„Það eru auðvitað mikil vonbrigði að Landspítalinn sé eftir þetta rekinn með halla á yfirstandandi ári,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við fjölmiðla að loknum ríkisstjórnarfundi í dag spurður út í þau ummæli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, að hugsanlega yrði að segja tugum starfsmanna upp á spítalanum ef ekki kæmi til aukið fjármagn á fjárlögum.
Bjarni vísaði þar til þess fjármagns sem eyrnamerkt hefði verið Landspítalanum á síðustu fjárlögum. Hann sagði að teldi spítalinn sig ekki hafa önnur úrræði en að fara út í frekari uppsagnir á starfsfólki myndu stjórnvöld að sjálfsögðu taka slíkar ábendingar alvarlega og fara ofan í forsendur málsins.
„En Landspítalinn verður samt sem áður að vera undir sömu sök seldur og aðrar ríkisstofnanir að reka sig innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi hefur ákvarðað.“