12% segist tala góða íslensku

Útlendingar eru stærstur hluti vinnuafls hjá sjávarútvegsfyrirtækjum á Vestfjörðum. Margir …
Útlendingar eru stærstur hluti vinnuafls hjá sjávarútvegsfyrirtækjum á Vestfjörðum. Margir eru þó vel menntaðir og gætu tekist á við fjölbreyttari störf. mbl.is/Golli

Aðeins 12% innflytjenda á Íslandi telja sig tala góða íslensku og ekki nema fjórðungur telur sig hafa starf við hæfi. Aðrir segjast ekki í starfi sem hæfir menntun sinni og reynslu. Sé það jafnvel ástæða atvinnuleysis síns um lengri tíma. Margir segja það sömuleiðis setja sér skorður að enskukunnátta þeirra sé ekki nógu góð, fjórðungur finnur fyrir fordómum og margir telja jafnvel erlent nafn setja sér félagsleg takmörk.

Norðvestur og Breiðholt

Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnunum Íslenskunám og fjölmenningarsamfélagið sem haldnar voru á Ísafirði og í Reykjavík í síðustu viku. Þær voru haldnar á vegum verkefnisins Menntun núna – sem nær yfir Norðvesturkjördæmi og Breiðholtshverfi í Reykjavík. Verkefnið er að hluta til gert út frá Háskólanum á Bifröst í Borgarfirði. Fjölmenni sótti ráðstefnurnar þar sem fjölmargir lögðu orð í belg.

Á ráðstefnunni í Reykjavík kom fram að skilgreina þurfi ferli og stuðning við íslenskukennslu sem sé minni nú en fyrr á árum. Sú vinna sé mikilvæg því aðeins um 20% útlendinga telji sig vera í starfi þar sem menntun þeirra og reynsla nýtist.

Þegar kom svo vestur á Ísafjörð beindu ráðstefnugestir, að því er segir í tilkynningu, sjónum að íslenskunámi og ólíkum kennsluaðferðum sem þróaðar hafa verið og virka vel. Er í því sambandi nefnt verkefnið Íslenskuþorpið sem Guðlaug Stella Brynjólfsdóttir kynnti. Það verkefni er einskonar brú úr kennslustofunni út í samfélagið og daglegt líf. Markmiðið er meðal annars að flýta fyrir frekara námi og þátttöku á íslensku í samfélaginu. Dr. Guðrún Theodórsdóttir er hugmyndasmiðurinn að Íslenskuþorpinu og var doktorsrannsókn hennar nýtt til að hanna nám. Eru niðurstöðurnar nú nýttar til að hanna og þróa fleiri tungumálaþorp.

Lykill að samfélaginu

Á Ísafirði kynnti Kristín R. Vilhjálmsdóttir frá Borgarbóksafninu í Reykjavík ýmis fjölmenningarverkefni þar á bæ. Inntak þeirra er að stuðla að gagnkvæmri félagslegri aðlögun, skapa vettvang fyrir menningar- og tungumálamiðlun og efla tengsl milli Reykvíkinga. Er í því sambandi nefnt að bókasafnsheimsókn verði þáttur í daglegu lífi innflytjenda. Geirlaug Jóhannsdóttir, sem stýrir verkefninu Menntun núna í Norðvesturkjördæmi, segir ráðstefnurnar m.a. hafa varpað ljósi á hversu víða sé unnið gott starf til að auðvelda innflytjendum þátttöku í samfélaginu. Mikilvægt sé að miðla af reynslu þeirra sem hafa þróað leiðir við kennslu. Tungumálið sé jú lykillinn að samfélaginu. Á Íslandi séu nú töluð 100 tungumál og víða séu vinnustaðir þar sem bróðurpartur starfsfólks er af erlendum uppruna, svo sem í fiskvinnslu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert