„Algerlega nýr veruleiki á Landspítalanum“

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að yfirvofandi verkfall Læknafélags Íslands, sem hefst aðfararnótt mánudags, sé algjörlega nýr veruleiki á spítalanum. „Framundan er því að líkindum veruleg röskun á starfsemi spítalans,“ segir Páll. 

Þetta kemur fram í pistli sem Páll skrifar og er birtur á vef Landspítalans.

„Yfirvofandi er verkfall Læknafélags Íslands sem hefst aðfaranótt mánudags og þann 4 nóvember hefur Skurðlæknafélag Íslands sínar verkfallsaðgerðir. Hér er á ferðinni algerlega nýr veruleiki á spítalanum enda hafa læknar ekki áður gripið til slíkra aðgerða. Framundan er því að líkindum veruleg röskun á starfsemi spítalans og ég bið ykkur að fylgjast vel með tilkynningum um málið á vefnum okkar,“ skrifar Páll.

Í pistlinum bendir hann á, að í  kjölfar efnahagshrunsins hafi verulega þrengt að rekstri Landspítala og hafði þó fram að þeim tíma verið stöðug aðhaldskrafa á spítalann.  

„Nú er staðan sú að rekstrarfé (á föstu verðlagi) er 10% minna en það var árið 2008, þrátt fyrir aukin verkefni. Störfin eru unnin af færra starfsfólki en engu að síður hefur framleiðni aukist. Það gerist ekki af sjálfu sér og, eins og ég hef áður sagt, þá má segja að sá árangur hafi að hluta til náðst með yfirdrætti í mannauði spítalans,“ skrifar forstjórinn.

Þá segir hann, að sex starfsmenn spítalans hafi af yfirvegun rætt stöðuna á spítalanum í Kastljósi á miðvikudagskvöldið. Áhyggjurnar eigi líklega samhljóm hjá öllu starfsfólki, „ég hef að minnsta kosti heyrt sambærilega umræðu á þeim 7 starfsmannafundum sem ég hef haldið nú síðustu tvær vikur. Nokkuð fastar var kveðið að orði í yfirlýsingu 44 samtaka sjúklinga og aðstandenda nú í vikunni þar sem þess var krafist að framlög til reksturs Landspítala yrðu aukin og aðstaðan bætt. Framundan er önnur umræða fjárlaga og ég hef þá trú að öflug samstaða starfsfólks og þjóðarinnar muni ná til fjárveitingavaldsins. Alþingi hefur áður sýnt málefnum spítalans skilning og horft til stöðunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert