Mikil fækkun í refastofninum frá 2008

Got refa á liðnu sumri virtust víða misfarast. Refum tók …
Got refa á liðnu sumri virtust víða misfarast. Refum tók að fækka árið 2009 og 2010. Vísbendingar eru um að áfram fækki refum. mbl.is/Árni Sæberg

Refum hefur fækkað hér á landi, að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). Nýjustu útreikningar sýna að refum hefur fækkað talsvert frá 2008. Vísbendingar eru um að árið 2010 hafi verið um þriðjungi færri dýr í refastofninum en þegar stærð hans var metin árið 2007.

Fækkunin, sem hófst 2009, tekur jafnt til svæða þar sem refir eru veiddir og til friðlanda. Ekki er vitað hvað veldur fækkuninni, að sögn NÍ. Hún gæti tengst veðurfari, fæðuskilyrðum, heilbrigði dýranna og jafnvel aðbornum mengunarefnum.

Vöktun refastofnsins hófst 1979. Haustið 2007 hafði stofninn vaxið samfellt í meira en 30 ár og var hann orðinn áttfalt stærri en við upphaf vöktunarinnar. Refum fjölgaði hratt eftir 2004 og náði stofnstærðin hámarki árið 2008. Næstu tvö ár, 2009 og 2010, fækkaði refum um 32% á landinu í heild, að mati NÍ. Vísbendingar eru um að þeim hafi haldið áfram að fækka síðan, þótt ekki sé hægt að fullyrða um það.

Vöktun refastofnsins og rannsóknir í tengslum við hana byggjast alfarið á góðu samstarfi við tófuskyttur um allt land. Þær senda refahræ til krufningar og aldursgreiningar, upplýsingar um veiðistaði o.fl.

Refaveiðimenn á Suðurlandi sáu fleiri geldlæður á grenjatíma í sumar en þeir áttu að venjast. Þá gekk nokkrum grenjaskyttum á Norður- og Suðurlandi erfiðlega að finna greni í ábúð í vor. Á Vesturlandi voru yrðlingar mjög misstórir, að því er fram kom í fréttatilkynningu frá Náttúrufræðistofnun.

Hrun varð í refastofninum á Hornströndum á liðnu sumri. Fylgst hefur verið með refum í friðlandi Hornstranda undanfarin 16 sumur. Þar hefur verið farið á þekkt greni og ábúð í þeim könnuð. Einnig hefur verið fylgst með afkomu yrðlinga yfir sumarið. „Þar varð nánast hrun í refastofninum síðastliðið sumar (2014) en fjölmörg dýr fundust dauð í vor og aðeins fáein pör komu upp yrðlingum. Er þetta í fyrsta skipti sem eitthvað slíkt hefur gerst á rannsóknartímabilinu,“ segir í tilkynningunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert