Þúsund lítrar af kjötsúpu

Um þúsund lítrar af kjötsúpu voru borin fram á Kjötsúpudaginn, sem haldinn var hátíðlegur á Skólavörðustíg í dag. Þetta er í 12. sinn sem Samtök kaupmanna á Skólavörðustíg fagna vetrarkomu með þessum hætti.

Alls var boðið upp á kjötsúpu á fimm stöðum á Skólavörðustígnum og það voru margir af fremstu matreiðslumönnum landsins sem gáfu vinnu sína. Líkt og venjan hefur verið undanfarin ár jós Úlfar Eysteinsson á fyrstu diskana fyrir fanga Hegningarhússins á Skólavörðustíg.

Boðið var upp á fjölda skemmtiatriða víðs vegar um Skólavörðustíg, meðal annars flutti Steindór Andersen kvæðamaður rímur í verslun Eggerts feldskera. Strax að loknum hátíðahöldum á Skólavörðustígnum kl. 16 hófst keppni í hrútaþukli á veitingastaðnum KEX við Skúlagötu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert