Fólk með ADHD í áhættuhópi

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Að setja eiturlyf ofan í bilun í heilanum er mjög áhættusamt,“ sagði Þórarinn Tyrfings­son, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi á málþingi ADHD samtakanna. „Það er alveg ljóst að allir þeir sem eru með þennan sjúkdóm, sem og marga aðra, ættu að fara varlega í það að nota lögleg vímuefni, hvað þá ólögleg,“ sagði hann. „Þeir sem eru með ADHD eru í áhættu að verða fílkar í vímuefni, það er ljóst. Þetta er áhættuhópur.

Markmiðið með þinginu var að vekja athygli á og auka skilning á málefnum fullorðinna með athyglisbrest og benda á leiðir til aukinnar virkni í samfélaginu. Talaði Þórarinn sérstaklega um þau vandamál sem koma upp þegar fólk með ADHD er í vímuefna- og áfengisvanda.

ADHD (Attention Deficit Hyperactivity Disorder) eða athyglisbrestur og ofvirkni, er taugaþroskaröskun. Ekki eingöngu börn og unglingar glíma við ADHD, því vandamál finnast einnig hjá fullorðnum einstaklingum. Talið er að um það bil 4-5% fullorðinna eigi við erfiðleika að stríða sem rekja megi til ADHD.

Rítalínfíkn mikil hér á landi

Á þinginu talaði Þórarinn jafnframt um rítalínfíkn, sem jókst gríðarlega hér á landi eftir efnahagshrunið 2008. Notk­un rítalíns í æð er vax­andi vanda­mál og nálg­ast að vera far­ald­ur meðal ís­lenskra fíkni­efna­neyt­enda. Gríðarleg fíkn fylg­ir slíkri neyslu og al­var­leg geðrof­s­ein­kenni, of­skynj­an­ir og rang­hug­mynd­ir. Þórarinn sagði þó aðeins hafa dregið úr rítalínneyslu á síðasta ári, þó hún sé enn ansi mikil. 

„Stór hluti fíkla sem koma inn á Vog segjast sprauta sig með rítalíni í æð,“ sagði Þórarinn. Hann sagði þó stærstan hluta þess fólks eldri neytendur. „Það er nefnilega þannig að lyfin sem notuð eru við ADHD eru líka vímuefni fyrir suma fíkla.“

Rítalín er fyrsta lyfið sem gefið er við ADHD, en að sögn Þórarins er hluti sjúklinga sem ekki getur notað það lyf. „Eins og kvíðinn maður sem er áfengissjúkur getur ekki drukkið áfengi til að deyfa vandann.“ Önnur lyf eru þó einnig gefin við sjúkdómnum og loks sagði Þórarinn marga geta nýtt sér aðrar lausnir, eins og kennslu og hugræna atferlismeðferð, sem getur nýst fólki til bata.

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert