98 ára gamall og lék á 98 höggum

Stefán Þorleifsson nýtir hvert tækifæri til að leika golf og …
Stefán Þorleifsson nýtir hvert tækifæri til að leika golf og kunni vel við sig í sólinni á Tenerife. Ljósmynd/golf.is

Hinn 98 ára gamli Norðfirðingur Stefán Þorleifsson er hvergi nærri hættur að spila golf þrátt fyrir háan aldur. Stefán, sem er fyrrverandi íþróttakennari, lék á dögunum á aldri sínum, ef svo má segja, þegar hann fór 18 holur á 98 höggum á sínum heimavelli, Grænanesvelli.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Stefán í nýjasta tölublaði tímaritsins Golf á Íslandi. Þar segist Stefán í stöðugri keppni við sjálfan sig og að markmiðið sé að leika „undir aldri sínum“.

„Skorið var svipað á báðum hringjunum þegar ég lék á 98 höggum. Grænanesvöllur er 9 holur og þetta voru því tveir hringir. Hver einasti golfari er sífellt að reyna að bæta leik sinn og ég er engin undantekning,“ sagði Stefán.

Stefán fór ásamt fjölskyldu sinni til Tenerife nú í haust og lék þar tvo golfhringi.

„Það er alltaf gaman að koma á nýja velli og glíma við þá. Völlurinn sem við spiluðum á Tenerife var mjög góður og gaman að leika golf á honum enda var félagsskapurinn einstaklega góður og skemmtilegur, en þar spiluðum við saman Gunnar Sólnes (sem á 2 Íslandsmeistaratitla) og Margrét Kristinsdóttir en þau eru tengdaforeldrar Þorleifs sonar míns. Nafni minn, Stefán Grétar Þorleifsson, var einnig með í för. Eftirminnilegast úr þessari ferð, fyrir utan það að vera þarna 18 saman úr fjölskyldunni, var að eiga þess kost að leika golf á erlendri grundu. En það mikilvægasta var að þarna vorum við saman 18 manneskjur úr sömu fjölskyldunni og nutum samverunnar á þessum dásamlega stað,“ sagði Stefán. Nánar er rætt við hann í tímaritinu Golf á Íslandi.

Stefán Þorleifsson er orðinn 98 ára gamall en lætur það …
Stefán Þorleifsson er orðinn 98 ára gamall en lætur það ekkert stoppa sig. Ljósmynd/golf.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert