1.400 þátttakendur frá 34 löndum

Fjölþætt dagskrá um margvísleg málefni Norðurslóða verður í boði á …
Fjölþætt dagskrá um margvísleg málefni Norðurslóða verður í boði á ráðstefnunni um helgina. mbl.is/Ómar

Alþjóðaþing Arctic Circle – Hringborðs Norðurslóða hefst í Hörpu á morgun og stendur næstu þrjá daga. Síðdegis í dag verður móttaka í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi fyrir þátttakendur í þingi Arctic Circle

Þingið sækja rúmlega 1.400 þátttakendur frá 34 löndum. Í þeim hópi eru sendinefndir frá Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína, Japan, Bretlandi, Frakklandi, Kanada, Kóreu, Singapúr, Finnlandi, Noregi og fleiri löndum sem skipaðar eru forystumönnum og fulltrúum ráðuneyta, vísindastofnana, almannasamtaka og fyrirtækja.

Þá munu þekktir vísindamenn, stjórnendur alþjóðlegra stórfyrirtækja og forystumenn náttúruverndarsamtaka sækja þingið. Auk allsherjarfunda þingsins verða þar starfræktar um 50 málstofur um fjölbreytt efni, að því er segir í tilkynningu.

Þá mun mikill fjöldi íslenskra vísindamanna, sérfræðinga og forystumanna í atvinnulífi og þjóðmálum einnig taka virkan þátt í fjölmörgum málstofum á þingi Arctic Circle, segir ennfremur.

„Á setningarfundi Arctic Circle, sem hefst kl. 8:30 í fyrramálið, flytja ræður forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Finnlands Sauli Niinistö, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður frá Bandaríkjunum, Robert J. Papp aðmíráll, sérstakur fulltrúi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, í málefnum Norðurslóða, Vincent Rigby, aðalfulltrúi Kanada í Norðurskautsráðinu en Kanada gegnir nú formennsku í ráðinu, og Sam Tan, ráðherra frá Singapúr. Þá verða flutt af myndbandi ávörp Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD.

Á morgunfundi þingsins verður einnig fjallað um skýrslu Polarisk stofnunarinnar um Norðurslóðir árið 2035 og stjórnandi bandaríska fyrirtækisins Planet Labs talar en það fyrirtæki mun á næstu misserum ljúka gervihnattavæðingu sem opnar öllum almenningi tækifæri til þess að fá myndir af sérhverjum stað á jörðinni en þær verða teknar einu sinni á hverjum sólarhring.

Eftir hádegi á morgun munu forseti Finnlands og fulltrúar atvinnulífs og rannsókna í Finnlandi lýsa stefnu landsins í málefnum Norðurslóða. Þá munu og þingmenn frá Bretlandi og breskum vísindastofnunum og fyrirtækjum á sama hátt lýsa stefnu Bretlands í málefnum Norðurslóða. Ávarp Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, verður flutt af myndbandi í upphafi þess dagskrárliðar.

Síðdegis verður fjallað um samstarf þjóðþinga á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi og fluttar skýrslur um einstaka þætti í Norðurslóðasamstarfinu.

Að því loknu hefjast málstofur um fjölþætt efni og verða þær víða í húsakynnum Hörpu sem og í nokkrum byggingum í nágrenninu. Á laugardag og sunnudag verður áfram fjölþætt dagskrá um margvísleg málefni Norðurslóða og má nálgast dagskrána á heimasíðunni www.ArcticCircle.org.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert