Kortafyrirtækin kyrktu Wikileaks

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, heldur ræðu á málþingi í Barcelona.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, heldur ræðu á málþingi í Barcelona. AFP

„Allt er þetta að undirlagi stjórnvalda í Washington,“ sagði Sveinn Andri Sveinsson þegar hann krafðist þess fyrir dómi í morgun að matsmenn verði dómkvaddir til að meta tjón Wikileaks á því að íslenska kortafyrirtækið Valitor lokaði á greiðslugátt félagsins í júní 2011.

Raunar er það ekki uppljóstrunarsíðan sjálf, Wikileaks, sem á aðild að málinu. Eða eins og Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Valitor, sagði: „Það liggur ekkert fyrir um það hvað Wikileaks er.“ Hann sagði rétt að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hafi stofnað hér félag sem nefnist Sunshine Press Productions en það hafi ekki neinar tekjur, sé með neikvætt eigið fé og hafi ekki skilað ársreikningi síðustu ár.

Sunshine Press Productions er fyrirtækið að baki Wikileaks og það ásamt fyrirtækinu DataCell fara fram á það sameiginlega að tjónið af lokun greiðslugáttarinnar verði metið. Er krafan byggð á dómi Hæstaréttar frá 24. apríl 2013 en þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að Valitor bæri að opna greiðslugáttina að nýju.

Flóknir útreikningar á tjóni

Greiðslugáttin var lokuð í 617 daga og sagði Sveinn Andri að talið væri að tjón DataCell og Sunshine Press Productions næmi 1,1-8,8 milljörðum íslenskra króna. Bæði fyrirtæki hafi orðið fyrir tjóni af völdum hinnar ólögmætu aðgerðar Valitor að loka greiðslugáttinni og samkvæmt samningi á milli þeirra hafi styrkir til Wikileaks átt að skiptast þannig að 95% upphæðarinnar rynni til Sunshine Press Productions og 5% til DataCell. Matið sé byggt á flæði styrkja í gegnum greiðslugáttina á þeim tíma sem hún var opin, í sjö klukkustundir. „En fólk reyndi áfram að koma framlögum til skila eftir að gáttinni var lokið.“

Alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækin lokuðu á greiðslur til DataCell í desember 2010 og sagði Sveinn Andri það hafa verið vegna þess að bandarískir ráðamenn hafi ekki ráðið við að heyra sannleikann. „Fyrirtækið gat ekki nema að örlitlu leyti selt þjónustu sína til fólks úti í heimi, það hefur verið í lamasessi og ekki getað hafi almennilega starfsemi vegna kortafyrirtækjanna. Allt er þetta að undirlagi stjórnvalda í Washington og vegna þrýstings öldungaþingmanna um að loka bæri fyrir allt fjárstreymi til Wikileaks. Í kjölfarið kyrktu kortafyrirtækin starfsemi Wikileaks.“

Sveinn Andri sagði nauðsynlegt að matsmenn yrðu dómkvaddir til að meta tjónið áður en skaðabótamál verði höfðað á hendur Valitor. Það liggi fyrir að tjón hafi orðið en um sé að ræða flókna útreikninga og háar fjárhæðir. Þá benti hann á að í lok síðasta árs hafi náðst samtaða milli aðila um að fá til verksins bandarískan sérfræðing. Í vor hafi svo allt í einu komið upp mótmæli og því hafnað að yfirleitt yrðu dómkvaddir matsmenn.

Sömu reglur fyrir Assange

Sigurður G. sagði það hárrétt hjá Sveini Andra að DataCell hafi unnið dómsmálið sem um ræðir. „Og það má vel vera að DataCell kunni að eiga skaðabótakröfu á hendur Valitor. En það er ekkert samningssamband á milli Sunshine Press Productions og Valitor. Sunshine Press Productions var ekki aðili að hæstaréttarmálinu sem fjallað er um. Þá liggur ekkert fyrir um það í gögnum þessa máls að Sunshine Press Productions hafi málflutningsumboð fyrir Wikileaks fyrir íslenskum dómstólum. [...] Það liggur ekki fyrir neitt í þessu máli um að Sunshine Press Productions fari með málflutningsumboð fyrir Wikileaks þótt það hafi tekið að sér að reka vefsíðu Wikileaks á heimsvísu.“

Hann sagði málið því falla um sjálft sig. Fyrirtækin geti ekki bæði og sameiginlega staðið að matsbeiðninni. Vel geti verið að DataCell eigi bótakröfu á hendur Valitor en Sunshine Press Productions eigi þá kröfu á hendur DataCell vegna samnings þeirra á milli. Ekkert samningssamband hafi verið á milli Valitor og Sunshine Press Productions „En DataCell og Sunshine Press Productions geta aldrei sameiginlega staðið að því að fá matsmann sem meta á tekjutap þeirra sem eina summu.“

Sagði hann að best væri fyrir lögmanninn Svein Andra að dómurinn myndi hafna kröfunni, hann myndi þá vanda sig betur næst. „Það er ekki bara hægt að slá því upp að þetta sé þekktur maður [Julian Assange] og að hann eigi einhvern sjálfsagðan rétt. Það þarf að fara eftir gildandi réttarfarsreglum. Og þetta er ekki flókið, lögmaðurinn getur bara búið til tvær matsbeiðnir.“

„Þetta er kýrskýrt“

Sveinn Andri sagði að matsbeiðnin væri „klassískt dæmi um samaðild“ og vísaði orðum Sigurðar um að málflutningsumboð liggi ekki fyrir algjörlega á bug. „Það er eins og að segja að ekki liggi fyrir að sólin komi upp á morgnanna. Það liggur fyrir samningur á milli DataCell og Sunshine Press Productions, og það liggur fyrir að Sunshine Press Productions rekur uppljóstrunarsíðuna Wikileaks. Og það liggur fyrir að stjórnarformaður Sunshine Press Productions er Julian Assange.“

Hann sagði ljóst að bæði félög verði aðilar að skaðabótamáli á hendur Valitor og því sé eðlilegt að þau fari sameiginlega fram á að tjónið verði metið. „Það liggur fyrir í samningi þessara félaga hver skipting fjármagnsins hefði orðið ef ekki hefði komið til þessarar ólögmætu lokunar. Þetta er kýrskýrt.“

Að loknum málflutningi var ágreiningsefnið tekið til úrskurðar og boðaði dómari að ekki tæki marga daga að komast að niðurstöðu.

Hlekkur inni á vefsvæði DataCell.
Hlekkur inni á vefsvæði DataCell. Mynd/DataCell
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert