Ríkið gefi eftir í læknadeilu

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar

Stjórnvöld hafa í tvígang á þessu ári mælt fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða. Læknar, sem krefjast hærri launa og betri kjara, hófu í fyrsta sinn verkfallsaðgerðir á mánudag. „Þetta er rosaleg pressa og ég myndi halda að ríkisvaldið yrði að gefa eftir,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur.

Þann 1. apríl mælti Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða vegna aðgerða Sjómannafélags Íslands á Herjólfi. Þá sagði hún: „[...] hér er auðvitað um neyðarúrræði að ræða. Það er ekki að ósk neins og það er sannarlega ekki að ósk þeirrar sem hér stendur eða ríkisstjórnarinnar að gripið sé til slíkrar lagasetningar.“

Freklega gengið á stjórnarskrárvarinn rétt

Þann 14. maí sl. mælti hún aftur fyrir frumvarpi til laga um frestun verkfallsaðgerða, en þá vegna aðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair. Þá talaði ráðherra ekki um neyðarúrræði heldur sagði ráðherra: „Til að forða því og tefla í hættu mikilvægum gjaldeyristekjum sem þjóðarbúinu eru nauðsynlegar til að standa undir skuldbindingum sínum og halda áfram þeim efnahagsbata sem við viljum öll að haldist, þarf Alþingi því miður að stíga inn í þessa deilu viðsemjenda með lagasetningu.“

Þá stóð til að setja lög á verkfall flugvirkja þann 18. júní sl. en Flugvirkjafélag Íslands ákvað að kvöldi sama dags að aflýsa boðuðu verkfalli sem taka átti gildi morguninn eftir. Formaður félagsins sagði í samtali við mbl.is að félagsmönnum hugnaðist ekki að þingmenn ætluðu að setja lög á verkfallið og því var þessi ákvörðun tekin.

Sjómannafélagið og FÍA voru sömuleiðis ósátt við þetta inngrip stjórnvalda. „Við erum fúl yfir þessu,“ sagði Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, um inngrip ríkisstjórnarinnar.

„Menn eru afar óhress­ir með þessa laga­setn­ingu og inn­grip rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Mönn­um finnst frek­lega gengið á stjórn­ar­skrár­var­inn rétt þeirra til verk­fallsaðgerða,“ sagði Haf­steinn Páls­son, formaður FÍA.

Seinni lagasetningin var 14. löggjöfin frá árinu 1985, þar sem stjórnvöld grípa inn í vinnudeilur og setja bann við verkföllum.

Heilbrigðisráðherra segist ekki huga að lagasetningu

Hvað varðar kjaradeilu lækna, þá hefur Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagt opinberlega að hann sé ekki að huga að lagasetningu. „Ég treysti því að menn nái samningum,“ sagði Kristján í samtali við Morgunblaðið í gær. Það skal þó tekið fram að málið er ekki einvörðungu á herðum heilbrigðisráðherra enda hlutverk fjármálaráðherra að halda utan um ríkiskassann.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir í samtali við mbl.is, að á síðustu áratugum hafi verið lítið um inngrip í vinnudeilur hér á landi. „Verkföll hafa verið tiltölulega sjaldgæf á almenna markaðinum en miklu algengari á opinbera markaðinum frá 1990, eftir þjóðarsáttarsamningana.“

Stefanía bendir á, þegar horft sé yfir langt tímabil, að inngrip í verkföll hafi frekar átt sér stað í atvinnugreinum þar sem útflutningstekjur hafi verið undir, t.d. hjá flugmönnum og sjómönnum.

14 lög sett á verkföll á 30 árum

Morgunblaðið fjallaði þann 16. maí sl. um grein sem þeir Friðrik Friðriksson, hdl. og MS í mannauðsstjórnun, og Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild HÍ, skrifuðu um verkföll á Íslandi 1985-2010. Þar kemur fram að á árunum 1985 til 2010 hafi komið til 166 verkfalla á vinnumarkaði hérlendis og samtals töpuðust 1.187.411 vinnudagar vegna þessara aðgerða. Gylfi Dalmann og Friðrik komust að því í rannsókn sinni að frá 1985 og til 2010 voru sett 12 lög á verkföll. Þar af tengdust þrjár vinnudeilur flugstarfsemi, fimm farmönnum og fiskimönnum, tvenn lög voru sett vegna opinberra starfsmanna, ein vegna mjólkurfræðinga og loks ein til að banna vinnustöðvanir almennt. Frá því að greinin birtist á árinu 2010 hefur löggjafinn tvívegis stöðvað verkföll með lagasetningu, sem fyrr segir.

Erfið staða

Stefanía vekur athygli á að þetta sé í fyrsta sinn sem lækna grípa til verkfallsvopnsins. Hins vegar hafi t.d. hjúkrunarfræðingar og meinatæknar gripið til aðgerða á undanförnum árum. Stefnía bendir á að lausn hafi ávallt fundist enda íslenskir heilbrigðisstarfsmenn í sérstakri stöðu og menn geti ekki stokkið úr einni vinnu í aðra á íslenskum vinnumarkaði. „Það er engin samkeppni um laun og aðstöðu. Það er því bara þetta opinbera til að semja við eða fara úr landi, og það sem gerir þessa stöðu erfiða er að þeir hafa verið að fara úr landi,“ segir Stefanía og bætir við að illa hafi gengið að manna stöður.

Stefanía bendir á að fyrir um ári hafi farið í gang mikil barátta innan Landspítalans fyrir bættum kjörum og bættri aðstöðu sem skilaði auka framlagi. Nú horfi menn á sömu baráttu í aðdraganda þess að ný fjárlög verði samþykkt.

Staðan sé hins vegar flókin, því á sama tíma og ríkið mundi niðurskurðarhnífinn ætli það jafnframt standa við skuldaleiðréttinguna, þ.e. höfuðstólslækkun verðtryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. „Það kallar á 20 milljarða á ári; 80 milljarða á fjórum árum. Það flækir þessa umræðu hvar réttlætið sé og hvernig eigi að forgangsraða,“ segir hún.

„Þetta er klassísk deila um hvernig eigi að skipta kökunni, hvert peningarnir eiga að fara. Og greiðendurnir eru skattgreiðendur, sem ríkisstjórnin er í forsvari fyrir. Það er opinberi geirinn sem er að pressa á launahækkanir, því hann segist hafa dregist svo mikið aftur úr frá hruni,“ segir hún.

Stjórnvöld verði „að gefast upp“

Áttu von á því að stjórnvöld muni reyna að þreyja þorrann í þessu máli?

„Nei, þau verða að gefast upp, það segir sig sjálft. En það er bara spurning hvar þau ætla að finna peningana og hvernig það er réttlætt gagnvart öðrum hópum í samfélaginu,“ segir Stefanía.

Hún segir að læknar njóti almenns stuðnings í samfélaginu, þ.e. að þeir hafi góð laun og að það verði ráðist í endurbætur á húsnæði Landspítalans. „Ég held að Landspítalafólkið hafi unnið það áróðursstríð, með því að sýna fram á að þessar aðstæður séu hrikalegar. En á sama tíma er byrjað að grafa undan trúnni á heilbrigðiskerfinu yfir höfuð, sem virðist þó hafa verið mjög mikil og fólk mjög ánægt - finnst manni - með þjónustuna sem það er að fá. En þegar það heyrir lýsingar fólks sem vinnur þarna þá fer það náttúrulega að efast um að þetta sé - í rauninni - annað en lífshættulegt að leggjast þarna inn á spítala, miðað við lýsingarnar. Þetta er svo hrikalegt.“

Stefanía segir aðspurð, að þó að stjórnvöld geti gripið til þess að ráðs að setja lög á verkföll, þá leysi það ekki þann vanda sem menn standi frammi fyrir í heilbrigðiskerfinu. Ljóst sé að skatttekjurnar dugi ekki til að gera allt það sem þurfi að gera auk þess stjórnvöld ætli sér að greiða niður skuldir. Lög á verkfallsaðgerðir yrðu því aðseins tímabundin ráðstöfun og í raun get læknar einfaldlega sagt upp og leitað sér að vinnu erlendis. 

Nýr veruleiki

„Þetta er rosaleg pressa og ég myndi halda að ríkisvaldið yrði að gefa eftir. Þá er spurningin hvernig það er fóðrað,“ segir Stefanía, enda ljóst að flestar ef ekki allar opinberar stofnanir glími við fjársvelti.

Eins og sést í upptalningunni hér að ofan, heyrir það til undantekninga að gripið sé til slíkrar lagasetningar gagnvart opinberum starfsmönnum. Stefanía tekur aftur á móti fram að læknar verði að gæta sín á því að missa ekki samúð eða virðingu almennings.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í pistli sem birtist á vef Landspítalans á föstudag, að yfirvofandi verkfall Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands væri „algerlega nýr veruleiki á spítalanum enda hafa læknar ekki áður gripið til slíkra aðgerða. Framundan er því að líkindum veruleg röskun á starfsemi spítalans,“. 

Stefanía Óskarsdóttir er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur í tvígang á þessu ári …
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur í tvígang á þessu ári lagt fram frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða. mbl.is/Ómar
Fyrst þann 1. apríl í vegna aðgerða Sjómannafélags Íslands á …
Fyrst þann 1. apríl í vegna aðgerða Sjómannafélags Íslands á Herjólfi. mbl.is/Styrmir Kári
Í annað sinn var það vegna verkfallsaðgera FÍA gegn Icelandair.
Í annað sinn var það vegna verkfallsaðgera FÍA gegn Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra (t.h.) hefur sagt að hann hafi …
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra (t.h.) hefur sagt að hann hafi ekki í hyggju að setja lög á verkfall lækna. Málið er þó ekki einvörðungu í höndum Kristjáns því Bjarni Benediktsson (t.v.) er fjármálaráðherra og gætir ríkiskassans. mbl.is/Kristinn
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segist trúa því að „öflug samstaða …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segist trúa því að „öflug samstaða starfsfólks og þjóðarinnar muni ná til fjárveitingavaldsins. Alþingi hefur áður sýnt málefnum spítalans skilning og horft til stöðunnar.“ mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert