Róðurinn mun þyngjast

mbl.is/Skapti

Starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri hefur gengið tiltölulega áfallalaust fyrir sig frá því að læknar lögðu niður störf á miðnætti aðfaranótt miðvikudags.

Framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu segir að róðurinn muni ef til vill þyngjast og biðlistar lengjast ef fleiri verkfallsdagar bætist við.

Fella þurfti niður tíu aðgerðir sem áttu að fara fram á sjúkrahúsinu í dag og í gær. Þá falla niður um 200 svokölluð sjúklingatengsl, þ.e. þegar læknir hittir sjúkling, t.d. vegna endurkomu eða á göngudeild. Finna þarf tíma fyrir alla þessa sjúklinga og gæti þurft að grípa til forgangsröðunar.  

Ekki mikið álag á bráðamóttökunni í gær

Aðspurður segir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, að ekki hafi verið mikið álag á bráðamóttökunni í gær. Læknar á heilsugæslunni komu aftur til starfa á sama tíma og læknar á sjúkrahúsinu lögðu niður störf. 

Sigurður segir að röskunin vegna verkfallsins gæti undið upp á sig ef verkfallið lengist í annan endann. Ekki sé mikið pláss í kerfinu til að bæta við sjúklingum sem hafa misst af tíma í aðgerð eða í endurkomu á sjúkrahúsinu og því er ljóst að biðlistar muni lengjast. 

Ekki auðvelt að skerða þjónustuna

„Þetta er vissulega óhagræði fyrir þá sem áttu að fara í stærri aðgerðir, hafa undirbúið sig andlega, fengið frí frá vinnu og fleira. Mín tilfinning er þó sú að fólk hafi ákveðinn skilning á þessu,“ segir Sigurður, aðspurður um hvernig sjúklingar hafa brugðist við röskun á þjónustu vegna verkfallsaðgerðanna.

Frétt mbl.is: Fresta tug aðgerða á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert