Stormur við suðurströndina

Búast má við austan hvassviðri eða stormi við suðurströndina í kvöld og nótt. Geta vindhviður náð allt að 35 til 40 m/s. Einnig má búast við mikilli úrkomu suðaustanlands.

Vegir á Suðurlandi eru að mestu greiðfærir, þó eru hálkublettir á örfáum vegum. Óveður er nú undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli. Vegna þessa vill lögreglan á Hvolsvelli brýna fyrir fólki að aka varlega, en nú þegar hefur strætisvagn hafnað utan vega vegna mikils vinds. Engin slys urðu hins vegar á fólki í óhappinu.

Vegir eru mikið auðir við Faxaflóa en hálka er á Holtavörðuheiði, í norðanverðri  Bröttubrekku og á Laxárdalsheiði. Þá er hálka á öllum helstu fjallvegum á Vestfjörðum og  hálkublettir í Ísafjarðardjúpi. Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp á Ströndum.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka á vegum en snjóþekja á Dettifossvegi. Það er hálka eða hálkublettir víða á Austurlandi en greiðfært frá Eskifirði suður um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert