Tannlæknir útbýr Barbípresta

Barbíprestur. Talsverð vinna liggur að baki því að sauma hempuna, …
Barbíprestur. Talsverð vinna liggur að baki því að sauma hempuna, en mestu vinnuna segir Anna vera í að rykkja pípukragann örsmáa. KRISTINN INGVARSSON

Þegar Barbídúkkan kom fyrst á markað árið 1959 var hún klædd sundbol einum fata, enda auglýst sem fyrirsæta. Fljótlega fór hún að starfa sem hjúkrunarfræðingur, flugfreyja og ballerína og síðan þá hefur Barbí haft viðkomu í flestum starfsgreinum. Geimfari og garðyrkjumaður, kúreki og kafari, læknir og lögfræðingur; starfsheiti dúkkunnar bandarísku hafa verið nokkuð mörg.

Og nú er Barbí orðin prestur.

Anna Magnúsdóttir tannlæknir í Reykjavík hefur að undanförnu saumað prestskrúða á dúkkuna vinsælu og hún segir nokkrar ástæður fyrir þessari iðju „Ég hef alltaf haft gaman af því að gera eitthvað í höndunum og byrjaði á þessu mér til gamans,“ segir Anna.

„Líklega er ég að slá nokkrar flugur í einu höggi. Mig langaði til að búa til leikfang sem hefur tilvísun í kirkju og kristni, en það er smátt og smátt verið að dauðhreinsa alla kristni og kristnifræðikennslu úr skólum. Við foreldrarnir, sem viljum að börnin okkar fái kristið uppeldi, þurfum að leggja okkur sérstaklega vel fram og leikföng geta verið ein leið til þess,“ segir Anna.

Í tilefni af vígslu Auðar Eirar

Önnur ástæða fyrir því að Anna ákvað að útbúa Barbíprestana er að í í haust voru 40 ár síðan Auður Eir Vilhjálmsdóttir var vígð til prests, fyrst kvenna. „Mér finnst fyllsta ástæða til að halda því á lofti,“ segir Anna. „En svo felst líka í þessu ákveðin verðmætasköpun með því að endurnýta gamlar Barbídúkkur sem enginn leikur sér með lengur.“

Barbídúkkan hefur verið talsvert gagnrýnd í gegnum árin og hún sögð gefa börnum röng skilaboð á ýmsan hátt, m.a. með djörfum klæðaburði. Er Barbípresturinn hugsaður sem einhverskonar mótsögn við það? „Kannski ekki meðvitað,“ segir Anna. „En hempan er vissulega svolítið öðruvísi en margt af því sem Barbí er vön að klæðast. Svo hefur Barbípresturinn talsvert meira hlutverk en bara að vera pæja,“ segir Anna.

Ken fer í fötin hennar Barbíar

Talsverð vinna liggur að baki því að sauma hempuna sem er skreytt örsmáum leirtölum sem Anna býr til. Mestu vinnuna segir hún þó vera að rykkja pípukragann smáa og að nokkrar tilraunir hafi þurft áður en hún var ánægð með útkomuna.

Spurð hvort Ken, kærasti Barbíar til margra áratuga, fái einnig prestsskrúða, segist Anna ekki hafa útbúið hann sérstaklega. „En það er spurning hvort hann kemst ekki bara í hempuna hennar Barbíar.“

Anna Magnúsdóttir hafði hug á að búa til leikfang sem …
Anna Magnúsdóttir hafði hug á að búa til leikfang sem tengdist kirkju og kristni. Hún segir eina af ástæðunum vera að í ár eru 40 ár liðin síðan fyrsti kvenpresturinn var vígður hér á landi. mbl.is/Kristinn
Í sunnudagaskóla. Hempuklædd Barbí sýnir áhugasömum börnum biblíumyndir.
Í sunnudagaskóla. Hempuklædd Barbí sýnir áhugasömum börnum biblíumyndir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert