21% íbúa í sjónvarpssal

mbl.is/Ómar

Í kvöld mætir lið Ásahrepps liði Fjarðarbyggðar í spurningaþættinum Útsvari á Rúv. Ásahreppur er minnsta sveitarfélagið sem tekur þátt í Útsvari í ár. Skráðir íbúar í Ásahreppi eru 193 og gert er ráð fyrir að um 40 þeirra muni mæta í sjónvarpssal. Verða því um 21% íbúa hreppsins samankomnir í Efstaleitinu í kvöld til að styðja sitt fólk til dáða.

Oddviti Ásahrepps, Egill Sigurðsson, er einn af þeim rúmlega 30 sem hyggjast taka rútu í bæinn til að fylgjast með keppninni. „Ég vona það allavega, ég held að menn hljóti að vera mjög áhugasamir um þetta,“ segir Egill þegar hann er spurður hvort ekki sé góð stemning fyrir keppninni í sveitarfélaginu. 

„Við erum fámennur en landsstór hreppur, það fer eftir því hvaða mælikvarða maður notar,“ segir Egill glettnislega um stærð sveitarfélagsins. „Vonandi hefur þetta bara góð áhrif á samfélagið og þjappar fólki saman, myndar ánægjulega stemningu í hreppnum.“

Útsvar hefst klukkan 20:10 í kvöld og er sem áður segir sýndur í beinni útsendingu á Rúv.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert