Barnahús tvöfaldast að stærð

„Gamla húsnæðið var sprungið vegna fjölgun mála á síðustu árum. Það var þverpólitísk samstaða um að bæta aðstæður í húsinu og fjölga sérfræðingum,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnahúss en í dag klukkan 15 flutti stofnunin í nýtt húsnæði. 

Nýja húsnæðið er betur sniðið að þörfum stofnunarinnar. „Með flutningunum tvöfaldast rýmið, það var um 200 fermetrar en er nú um 400. Við getum því sinnt börnunum betur og meira rými er tekið frá fyrir meðferðarstarf. Einnig höfum við nú skapað aðstöðu fyrir unglinga sem okkur hefur sárvantað. Mörgum unglingum þótti gamla barnaherbergið mjög barnalegt en nú erum við með sérstakt rými fyrir þá,“ segir Bragi. 

Öll þjónusta undir sama þaki

Í Barnahúsi fer fram barnvingjarnleg nálgun við vinnslu kynferðisbrotamála þar sem börn eiga í hlut. Þar geta allar stofnanir sem í hlut eiga, svo sem lögregla, læknar og barnaverndaryfirvöld, unnið undir sama þaki til hagsbóta fyrir barnið.

Bragi segir að starfsemi hússins sé í raun þríþætt. Í fyrsta lagi fari þar fram sameiginleg rannsóknarviðtöl fyrir lögreglu á ákæruvald vegna meðferðar más. Í öðru lagi fer þar fram könnun barnaverndaryfirvalda á málum barns með það að markmiði að tryggja öryggi og veita viðeigandi stuðning. Síðan getur einnig farið þar fram læknisfræðileg skoðun, framkvæmd af barnalæknum eða kvensjúkdómalæknum.

Dómsskýrslur barna fyrir dómi eru einnig teknar í Barnahúsi. Er skýrslan tekin af sérfræðingi hússins en sérstakt herbergi er svo til hliðar þar sem dómari og fulltrúar máls geta fylgst með. 

16 ára saga Barnahúss

Barnahús hóf starfsemi þann 1. nóvember árið 1998 og fagnar því 16 ára afmæli í ár. Alls hafa um 4 þúsund börn komið í Barnahúsið, að jafnaði um 2-300 á ári síðastliðin ár. Árið 2002 var íslenska barnahúsið valið besta fyrirkomulag í meðferð kynferðisbrota í rannsókn Save the Children Europe í skýrslu um börn og réttarkerfi í Evrópu árið 2002 og alþjóða barnaverndarsamtökin ISPCAN veittu því sérstök verðlaun á þingi sínu árið 2002. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert