Stjórnvöld „hagi sér eins og manneskjur“

Mótmælin fara fram á Austurvelli nk. mánudag.
Mótmælin fara fram á Austurvelli nk. mánudag. mbl.is/Golli

Hátt í þrjú þúsund hafa boðað komu sína á fjöldafund á Austurvelli þar sem aðgerðum ríkisstjórnarinnar verður mótmælt, en grasrótarsamtök standa fyrir mótmælunum. Markmiðið er ekki að koma ríkisstjórninni frá heldur að ráðamenn þjóðarinnar hagi sér „eins og manneskjur“.

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur Kristinsson er einn skipuleggjenda mótmælanna, sem hefjast klukkan 17 á mánudag. Hann segir fólk úr öllum áttum með ólík sjónarmið koma að skipulagningunni. Þetta sé grasrótarhreyfing sem hafi engin tengsl við stjórnmálaflokka. Búið er að stofna síðu á Facebook þar sem yfir 2.700 hafa boðað komu sína þegar þetta er skrifað.

Gera fólki upp annarleg sjónarmið

„Fólk er reitt yfir svo mörgu. Því líður eins og það sé verið að taka grunngildi Íslands í sundur; samhjálpina, samstöðuna og samfélagið. Það sé verið að tæta í sundur möguleika fólks á menntun á fullorðinsárum, tæta í sundur heilbrigðiskerfið og daðra við einkavæðingu,“ segir Svavar í samtali við mbl.is.

„Það sem er verst er að það er endalaust verið að gera lítið úr fólki sem er að segja skoðanir sínar - mótmælendum og öðrum. Það er verið að gera því upp annarleg sjónarmið,“ segir hann ennfremur.

„Við viljum vernda grundvallarhugsjónina um Ísland sem samfélag en ekki þrjú hundruð þúsund einkahlutafélög. Við erum ekki hópur af kennitöluflökkurum.“

Snýst ekki um að koma ríkisstjórninni frá

Spurður út í skipulag mótmælanna, þ.e. hvort flytja eigi ávörp eða afhenda ríkisstjórninni áskorun, segir Svavar að það sé enn til umræðu meðal skipuleggjenda. Hann tekur hins vegar fram að búast megi við tónaflóði enda hafi margir tónlistarmenn boðað komu sína.

Aðspurður tekur hann fram, að þetta snúist ekki um að víkja frá lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn heldur „að þessi ríkisstjórn hegði sér eins og manneskjur. Hætti að jaðarsetja fólk, gera því upp annarlegar hvatir og fari að koma fram við Íslendinga eins og þegna í lýðræðisríki“.

Svavar hvetur stjórnvöld til að hlusta á það sem almenningur hafi að segja, taka það alvarlega og læra jafnframt að taka gagnrýni. „Við erum að biðja um lágmarks lýðræðisleg vinnubrögð frá ríkisstjórninni,“ segir hann að lokum.

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur er á meðal skipuleggjenda mótmælanna.
Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur er á meðal skipuleggjenda mótmælanna. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert