Hiti í Reykjavík undir meðallagi

Dæmigert haustveður.
Dæmigert haustveður. mbl.is/Þorkell

Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi í októbermánuði en veðurlag var lengst af meinlítið. Fremur kalt var að tiltölu í mánuðinum miðað við aðra mánuði ársins. Meðalhitinn í Reykjavík var 4,2 stig en 2,7 stig á Akureyri, á báðum stöðum nánast sá sami og í október í fyrra.

Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti Veðurstofu Íslands. Þar segir einnig að í Reykjavík hafi mánuðurinn verið langkaldastur mánaða ársins að tiltölu og sá eini hingað til með hita undir meðallagi 1961 til 1990, 0,2 stigum undir því og 0,4 undir meðallagi októbermánaða síðustu tíu ár. Á Akureyri var meðalhitinn 2,7 stig, 0,3 stigum undir meðallagi árin 1961 til 1990 og 0,2 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Að tiltölu var kaldast á veðurstöðvum um landið vestan- og norðanvert en hlýjast á strandstöðvum á Norður- og Austurlandi en þar var hitinn víða lítillega yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Úrkoma var lítillega undir meðallagi víðast hvar um landið vestanvert, mest undir því á Snæfellsnesi. Í öðrum landshlutum var úrkoman annars nærri meðallagi.

Sólskinsstundir voru fleiri en í meðalári í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert