Sigmundur: „Mikið í húfi“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á ráðstefnunni í morgun.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á ráðstefnunni í morgun. mbl.is/Eggert

Mikil tækifæri liggja í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað á norðurheimskautinu og er mikið í húfi að mati forsætisráðherra. Hann segir ljóst að menn verði að takast á við loftlagsbreytingar og koma í veg fyrir hernaðaruppbygginu á svæðinu. Hann kveðst bjartsýnn enda svæðinu vel stjórnað.

„Ég er bjartsýnn á að við getum fetað hinn gullna meðalveg, finna nauðsynlegt jafnvægi og takast á við - í góðri samvinnu - tækifæri jafnt sem áskoranir,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í ávarpi sem hann flutti í morgun við setningu alþjóðaþingsins Hringborð Norðurslóða, sem fer nú fram í Hörpu.

Á meðal annarra sem ávörpuðu þingið í morgun, var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Sauli Ni­inistö, forseti Finnlands. Þá voru flutt af mynd­bandi ávörp Ang­elu Merkel, kansl­ara Þýska­lands, og Ang­el Gur­ría, fram­kvæmda­stjóra OECD. En allir voru sammála um mikilvægi þessarar ráðstefnu, sem er nú haldin í annað sinn, og mikilvægi þess að ríki og aðrir aðilar starfi saman varðandi þær breytingar sem eru að eiga sér stað.

Forgangsmál hjá ríkisstjórninni

Sigmundur Davíð sagði í ávarpi sínu, að Ísland fylgdist grannt með þeim áhrifum sem væru að eiga sér stað á norðurheimskautinu af völdum loftlagsbreytinga. Nálægð Íslands við norðurheimskautið byði upp á sæti í fremstu röð til að fylgjast með atburðunum.

Hann sagði að málefni norðurheimsskautsins væri eitt af forgangsmálum núverandi ríkisstjórnar. Stjórnvöld hefðu t.d. á síðasta ári sett á laggirnar ráðherranefnd um málefni norðurslóða þar sem lykilatriðið væri að eiga gott samstarf við önnur ríki og aðila. Þær breytingar sem væru að eiga sér stað á norðurheimskautinu væru af ýmsum toga og hefðu áhrif á samfélög á mismunandi hátt, þ.e. á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti sem og öryggismál. Því yrðu menn að finna heildræna lausn varðandi þróun svæðisins. Menn yrðu finna jafnvægi á milli rannsókna og náttúrverndar, enda svæðið afar viðkvæmt.

Sigmundur Davíð sagði að Hringborð Norðurslóða væri mikilvægur og einstakur vettvangur til að ræða um framtíð norðurheimskautsins. Þar kæmu saman þjóðir sem ættu hagsmuna að gæta, en það ætti ekki síst við samfélög frumbyggja á svæðinu. „Þrátt fyrir að mikið sé í húfi, bæði fyrir ríki og fyrirtæki, þá megum við ekki gleyma því að þarna búa frumbyggjar og við verðum að vernda þeirra lífshætti og réttindi.“

Norðurheimskautið er ekki Miðjarðarhaf

Sigmundur Davíð tók fram, að í dag ættu 10 af 11 stærstu hagkerfum heims aðild að ráðinu með einum eða öðrum hætti. Smátt og smátt væri Hringborð Norðurslóða breytast úr því að vera einvörðungu umræðuvettvangur í að vera þing þar sem formlegar ákvarðanir væru teknar og stefnur mótaðar til framtíðar.

„Það er í raun mjög merkilegt, þegar maður hugsar um það, hvernig norðurheimskautið hefur orðið að svæði þar sem stöðugleiki ríkir og samvinna í kjölfar þeirra spennu sem ríkti tímum kalda stríðsins. Við verðum að halda áfram að byggja ofan á þetta og gæta okkur á hættunni á hernaðaruppbyggingu og átökum á svæðinu,“ sagði hann.

„Við megum ekki gleyma því að norðurheimskautið verður ávallt norðurheimskautið, en ekki Miðjarðarhaf,“ sagði hann einnig og vísaði í dæmisögu um norðurheimskautið. Þó að viðskiptatækifæri væru að aukast þá yrðu menn að halda ró sinni. Veðrið yrði áfram kalt og óútreiknanlegt. Þó að svæðið væri að verða aðgengilegra þá væri það hvorki opin þjóðbraut né hættulaust.

Mikil auðæfi á svæðinu og siglingaleiðir að opnast

Forsætisráðherra sagði ennfremur að loftlagsbreytingar væru að eiga sér stað hér og nú, og þær hefðu áhrif á líf allra jarðarbúa. Hann tók hins vegar fram, að loftlagsbreytingar væru ekki nýjar af nálinni. Á tímum iðnbyltingarinnar, á seinni hluta 19. aldar, jókst losun gróðurhúsalofttegunda, og síðan þá hefði hitastig á jörðinni farið hækkandi. Hann benti á að íshellan á norðurheimskautinu hefði minnkað að meðaltali um 11% á hverjum áratug, þ.e. að minnsta kosti frá áttunda áratug seinustu aldar.

Hann tók aftur á móti fram, að á þessu ári væru vísbendingar um að íshellan væri ekki að dragast saman. Almennt séð væri hins vegar ljóst að miklar og hraðar breytingar ættu sér þarna stað.

Sigmundur Davíð sagði að mikið væri í húfi, ekki aðeins varðandi þær breytingar sem væru að eiga sér af stað af völdum loftlagsbreytinga, heldur væru ennfremur þarna mikil viðskiptaleg tækifæri. Hafsvæðið við norðurslóðir búi yfir miklum auðlindum, þ.e. olíu og jarðgasi. Talið væri að um 18% af allri olíu og 30% af öllu jarðgasi sem ekki væri búið að uppgötva í heiminum væri að finna við norðurheimskautið. Þar að auki væri svæðið auðugt af ýmsum öðrum málmum og öðrum verðmætum.

Þá benti Sigmundur Davíð á að þarna væru mikilvægar siglingaleiðir að opnast sem myndu stytta leiðir og tengja betur saman Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku, bæði landfræðilega og viðskiptalega. Ljóst væri að skipaumferð væri að aukast þótt hún væri ekki mjög mikil sem stendur, en 71 skip fór um svæðið á síðasta ári - þau voru 46 árið 2012. Þá nam vöruflutningur um svæðið í fyrra um 1,3 milljörðum tonnum.

Miðstöð leitar og björgunar verði á Íslandi

„Ísland mun vera ábyrgur aðili á norðurheimskautinu. Ríkisstjórn mín skoðar nú möguleika á því að setja upp alþjóðalega leitar- og björgunarmiðstöð á Íslandi,“ sagði ráðherra. Aðstæður hér væru kjörnar með tilliti til legu landsins, traustra innviða, aðbúnaðar og þeirrar þekkingar sem Landhelgisgæslan búi yfir.

Sigmundur Davíð sagðist vera bjartsýnn um framtíð svæðisins. „Ég byggi bjartsýni mína að hluta á þeirri staðreynd að svæðinu er vel stjórnað. Þær stofnanir og það lagalega fyrirkomulag sem gidir á svæðinu sitja á traustum grunni og ríki við norðurslóðir hafa í gegnum tíðina sýnt  að þau geti leyst mál í friði og vinsemd,“ sagði forsætisráðherra.

Þingið sækja rúm­lega 1.400 þátt­tak­end­ur frá 34 lönd­um.
Þingið sækja rúm­lega 1.400 þátt­tak­end­ur frá 34 lönd­um. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert