Vilja sjá að botninum sé náð

Ljósmynd/ Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það hefur alltaf verið planið að koma heim. Það eru þó ýmsar blikur á lofti, margir íslenskir læknar vilja sjá að það sé eitthvað á leiðinni upp, að botninum hafi verið náð,“ segir Martin Ingi Sigurðssson, læknir í sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum Brigham og Women´s Hospital í Boston í Bandaríkunum.

Greiðir 1,8 milljónir fyrir sérnámið

Martin hóf sérfræðinám sitt árið 2012 og gerir ráð fyrir að ljúka því árið 2018, en þá verður hann 36 ára. Hann gerir ráð fyrir að greiða að minnsta kosti 1,8 milljónir króna fyrir að afla sér sérfræðimenntunar.

Hann bendir á að þar sem ekki er hægt að vísa sjúklingum á „stærri staði“ af Landspítalanum sé hagur íslensks heilbrigðiskerfis af því að læknar fari utan til sérfræðisnáms óumdeildur. 

„[...] fæð landsmanna ekki næg þjálfunartækifæri í sjaldgæfari eða alvarlegri sjúkdómum og því er mikilvægt að íslenskir læknar læri á stórum háskólasjúkrahúsum erlendis til að afla sér sérfræðiþekkingar,“ segir Martin í færslu sem hann deildi á Facebook. 

Sér ekki eftir tímanum eða peningunum

„Ég sé hvorki eftir þeim peningum sem ég haf varið til að koma mér í sérfræðinám erlendis, né þeim tíma sem ég nýtt til menntunar og reynslusöfnunar til að geta sinnt framtíðarstörfum mínum,“ skrifar Martin.

„Ég vona hins vegar að ég haldi góðri heilsu og starfsþreki til þess að geta niðurgreitt skuldir, koma mér upp fjölskyldu, eignast framtíðarhúsnæði og safna í sarpinn fyrir efri ár. Ég þarf ekki að fá laun bandarísks sérfræðilæknis komi ég heim en vænti þess að laun fylgi kjörum lækna í Skandinavíu og dugi mér og fjölskyldu minni fyrir bærilegu lífi.“

Hvatning til að koma heim

Martin segir í samtali við mbl.is að hann og eiginkona hans, sem er sérnámslæknir í taugalækningum við University of Massachusetts, hafi alltaf stefnt að því að flytja heim til Íslands eftir að námi þeirra lýkur.

Hann segir að þau, sem og margir aðrir ungir íslenskir læknar í námi erlendis, vilji sjá að botninum hafi verið náð og íslenska heilbrigðiskerfið sé á leið upp úr hyldýpinu, að einhver von sé um betri kjör og vinnuaðstæður lækna hér á landi. Það muni hvetja þau til að koma heim að sérnámi loknu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert