Í lagi að gera grín að fötluðum

Það þykir jafnvel eðlilegt að færa hjólastól til án þess …
Það þykir jafnvel eðlilegt að færa hjólastól til án þess að ræða við manneskjuna sem á hjólastólinn og situr í honum. AFP

Fatlaðar konur eru mun líklegri til að verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni en aðrar konur og það sem meira er það þykir frekar í lagi að beita fatlaðar konur ofbeldi en aðrar konur. Það þykir líka í lagi að gera grín að fötluðum konum og niðurlægja þær. Jafnvel í fjölmiðlum. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Hrafnhildar Snæfríðar- og Gunnarsdóttur á Þjóðarspeglinum.

 Fram kom í erindi hennar að rannsóknir hafi varpað ljósi á eðli og ólíkar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum og sýna jafnframt að fatlaðar konur fá sjaldan stuðning til að takast á við afleiðingar ofbeldisins.

Hrafnhildur fjallaði í erindi sínu um rannsókn sem unnið er að á vegum rannsóknarseturs í fötlunarfræðum.Rannsóknin er hluti af stærra Evrópuverkefni og er unnin í samstarfi við rannsóknarhópa í Austurríki, Englandi og Þýskalandi.

Tekin voru einstaklingsviðtöl við fatlaðar íslenskar konur auk rýnihópaviðtala við 16 fatlaðar konur þar sem umræðuefnið var ofbeldi og aðgengi fatlaðra brotaþola að stuðningi.

Þykir allt í lagi að glápa og hlutgera fatlaða

Að sögn Hrafnhildar eru niðurstöður rannsókna sláandi þar sem fram kemur að lítill skilningur sé á ofbeldi gagnvart fötluðum konum og þegar þær sögðu frá ofbeldinu þá var þeim einfaldlega ekki trúað. Staða kvenna sem glíma við geðræn vandamál sé mjög slæm og að fatlaðar konur séu jaðarsettar í samfélaginu. 

Það sé glápt á fatlaða og þeir oft hlutgerðir. Til að mynda ef þú ert í hjólastól þá hikar fólk ekki við að færa stólinn til - án þess að ræða við þann sem er í stólnum.

Ein þeirra nefndi að hún vilji ekki lengur stuðning frá fjölskyldunni þar sem fjölskyldan verndi hana svo mikið. Þetta getur þýtt að viðkomandi missir samband við fjölskylduna sem er mjög slæmt því sterkt bakland er mikilvægt ef þú verður fyrir ofbeldi, segir Hrafnhildur og bætir við að þær segi oft ekki frá ofbeldinu því það þýði að þær verði verndaðar enn frekar.

Hrafnhildur vísaði í erindi sínu til orða starfsmanns á sambýli sem fullyrðir að fatlaðar konur séu beittar ofbeldi á sambýlum. Kannski ekki líkamlegu en andlegu og þær oft niðurlægðar og búi við ofríki.

Fatlaðar konur verði oft samdauna ástandinu og kenna sér um ofbeldið og telja að þær eigi ekki sama rétt og aðrar konur á Íslandi. Þetta sé innprentað inn í þær - að vera þakklátar fyrir það sem að þeim er rétt. 

Hrafnhildur kom einnig inn á skýrslu sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið í fyrra en þar er byggt á viðtölum við 13 fatlaðar konur sem höfðu reynslu af margháttuðu ofbeldi í æsku og á fullorðinsárum. Fram komu sögur af líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hendi fólks sem stóð þeim nærri og einnig var því lýst hvernig vinnulag á heimilum fyrir fatlað fólk vó að sjálfræði þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert