Ráðinn ritstjóri Pressunnar

Kristjón Kormákur Guðjónsson og Björn Ingi Hrafnsson
Kristjón Kormákur Guðjónsson og Björn Ingi Hrafnsson

Kristjón Kormákur Guðjónsson hefur verið ráðinn ritstjóri Pressunnar. Kristjón hefur starfað hjá Vefpressunni frá 1. júní 2012, fyrst sem blaðamaður en hann var ráðinn sem fréttastjóri þann 11. maí 2013. Hann tekur nú við sem ritstjóri. Kristjón hefur aðallega fengist við fréttaskrif fyrir Pressuna en einnig skrifað á Bleikt og Eyjuna.

Björn Ingi Hrafnsson verður útgefandi allra miðla Vefpressunnar, Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt. Þá sér hann um sjónvarpsþáttinn Eyjuna á Stöð 2, auk þess sem hann mun leiða ný verkefni á vegum fyrirtækisins sem nánar verða kynnt á næstunni, að því er segir í fréttatilkynningu.

Kristjón  hefur meðal annars fengist við skáldsöguskrif, blaðamennsku og handritaskrif. Hann er búsettur í Hveragerði ásamt sambýliskonu sinni og þremur dætrum.

Á ruv.is kemur fram að forráðamenn DV hafa komið að máli við forsvarsmenn Vefpressunnar með samstarf eða samruna í huga. Þetta staðfestir Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Eyjunnar, í samtali við fréttastofu RÚV. Engar formlegar viðræður séu þó hafnar.

Björn Ingi segir í samtali við fréttastofu að þeir hjá Vefpressunni hafi haft þetta mál til alvarlegrar skoðunar. Ekkert liggi þó fyrir á þessari stundu. Hann segir að málið ætti að skýrast á næstu dögum eða vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert