Gætu notað brautina áfram

Reykjavíkurflugvöllur úr lofti
Reykjavíkurflugvöllur úr lofti Árni Sæberg

NA/SV-braut Reykjavíkurflugvallar mætti nota áfram væri fyrirhuguðum byggingum á Hlíðarendasvæðinu breytt. Ekki hefur hins vegar verið hægt að opna þá umræðu. Þetta sagði Friðrik Pálsson frá samtökunum Hjartanu í Vatnsmýrinni á sameiginlegum fundi tveggja þingnefnda í morgun.

Boðað var til fundar í atvinnuvega- og umhverfis- og samgöngunefndum Alþingis í morgun í kjölfar þess að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti deiliskipulag fyrir Hlíðarendasvæðið í gær. Því hefur verið haldið fram að það muni skerða nýtinga NA/SV-flugbrautar vallarins sem sumir hafa nefnt neyðarbraut.

Friðrik sagðist telja að ef fullur vilji væri til staðar um að komast að samkomulagi um flugvöllinn þá væri það hægt. Til dæmis væri hægt að breyta lögun þeirra bygginga sem fyrirhugað er að reisa á Hlíðarendasvæðinu þannig að hægt yrði að nota brautina áfram á meðan unnið væri að lausnum til lengri tíma. „Það hefur ekki sýnt sig að hægt sé að opna þá umræðu,“ sagði hann.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, var spurður að því hvort loka þyrfti NA/SV-brautinni strax vegna ákvörðunar borgarinnar. Hann sagði svo ekki vera. Fyrirtækið væri háð ákvörðunum innanríkisráðherra og Alþingis. Þegar byggingarnar verði risnar verði hins vegar greinilegt að brautin lokist frá ákveðinni átt.

Hann var einnig spurður út í hvað aðrar flugvallarkostir gætu kostað, til dæmis ef reistur yrði nýr flugvöllur við Reykjavík. Björn Óli sagði að það yrði afar kostnaðarsamt. Skaut hann á að fengist nýr völlur fyrir 30 milljarða króna þá væri það mjög ódýrt. Hann héldi þó að það yrði mun dýrara.

Neyðarbraut ekki til

Breytt deiliskipulag Hlíðarenda samþykkt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert