Rúllupylsa var það heillin

Jón Jónsson, Hafdís Sturlaugsdóttir, Jón Valur Jónsson og Dagný Ósk …
Jón Jónsson, Hafdís Sturlaugsdóttir, Jón Valur Jónsson og Dagný Ósk Jónsdóttir Valdís Einarsdóttir

Sælkerar geta alltaf fundið sér tilefni til þess að hlakka til og næst er það þriðja Íslandsmeistarakeppnin í rúllupylsugerð sem verður haldin í Þurranesi í Saurbæ í Dalasýslu á laugardag.

Slow Food á Íslandi og Þaulsetur sf. standa að keppninni, sem er öllum opin og liður í því að viðhalda og vekja athygli á fornum hefðum og handverki í matargerð.

Kveikjan erlent handverk

Íslenskir bændur, fulltrúar fyrirtækja í matargerð og fleiri hafa sótt matarhátíðina Salone del Gusto í Tórínó á Ítalíu undanfarin ár, þar sem matarhandverk víðs vegar að úr heiminum hefur verið kynnt. Þar kviknaði hugmyndin að rúllupylsukeppninni fyrir rúmum tveimur árum. „Okkur fannst vanta eitthvað til þess að hressa upp á gamla handverkið, sem við vildum ekki að glataðist,“ segir Halla Steinólfsdóttir í Ytri-Fagradal, einn skipuleggjenda keppninnar, sem var fyrst haldin samfara jólamarkaði í Króksfjarðarnesi 1. desember 2012. Halla segir að byrjunin hafi lofað góðu, keppendur hafi komið víða að með góðgæti og markmiðið sé að ná til alls landsins, því þetta sé Íslandsmeistarakeppni.

Halla segir að hugmyndin sé ekki síður til þess að ýta undir fjölskyldustemninguna, eins og þegar fólk komi saman og taki slátur. „Þá er tilvalið að skella í eina rúllupylsu eða gera kæfu í leiðinni,“ áréttar hún.

Rúllupylsur eru eins misjafnar og þær eru margar. Halla bendir líka á að smekkur manna sé misjafn. „Keppnin er auðvitað fyrst og fremst til gamans gerð,“ segir hún og bætir við að nýbreytni sé sérstaklega verðlaunuð.

Þeir sem treysta sér ekki í Dalina á laugardag geta sent rúllupylsur í keppnina. Halla segir að aðalatriðið sé að handverkið sjáist og viðstaddir fái að smakka og taki þátt í matinu, en á meðal dómara séu Dominique Plédel Jónsson frá Slow Food á Íslandi og Kjartan H. Bragason, formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna.

Skráning í keppnina verður í Þurranesi klukkan 13-13.30 á laugardag og dómarar hefja störf kl. 14. „Þetta er eintóm gleði og því fleiri þátttakendur þeim mun meira gaman,“ segir Halla.

Blandast illa við soðinn bjór

Hjónin Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson í Húsavík á Ströndum sigruðu í fyrstu keppninni og vörðu Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. „Við erum rúllupylsufólkið,“ segir Matthías og bætir við að þau hafi ákveðið að vera með í Króksfjarðarnesi þar sem þangað væri aðeins 20 mínútna akstur. „Eða eins og maðurinn sagði þegar hann kom á kvenfélagsfundinn og konan hans spurði hvað hann væri að gera þar: Ég kom bara til að fjölga mannkyninu.“ Við ákváðum að fjölga rúllupylsunum.“ Síðan hafi þau haldið keppnina í fyrra.

Matthías segir að alltaf sé gaman að prófa eitthvað nýtt sem byggist á gömlum hefðum en dæmið gangi ekki alltaf upp. „Við prófuðum að búa til bjórrúllupylsu en það misheppnaðist algerlega,“ segir hann. „Hún var hræðilega bragðvond.“

Meistarapylsan 2013.
Meistarapylsan 2013. Valdís Einarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert