Konur skapi sér sjálfar tækifæri

Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar.
Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar.

„Málið snýr þannig að Byggðastofnun er náttúrulega ætlað að efla byggð í dreifðum byggðum. Sérstakt vandamál sem við höfum átt við að glíma er takmörkuð atvinnutækifæri kvenna í dreifðum byggðum. Þessi hefðbundnu kvennastörf eru oft einhæf og illa launuð. Sérstaklega eiga ungar konur með meiri menntun erfitt með að finna eitthvað við sitt hæfi. Þannig að hugmyndin er að reyna að fá konurnar til þess að skapa sér sjálf atvinnutækifæri.“

Þetta segir Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, í samtali við mbl.is en greint var frá því á dögunum að samþykkt hefði verið í stjórn stofnunarinnar að setja á laggirnar nýjan lánaflokk sem væri sérstaklega hugsaðurmeð fyrirtæki í huga sem væri í meirihlutaeigu kvenna og undir stjórn kvenna. Til þess yrði varið allt að 200 milljónum króna og hámarkslán væru 10 milljónir króna. Ef trygg veð kæmu á móti mætti lána hærri upphæð. Lánin væri annars án veða og á hagstæðum vöxtum. Krafa væri um að verkefnið leiddi til aukinnar atvinnuþátttöku kvenna.

„Þarna er verið að horfa til sprotafyrirtækja þar sem vantar tiltölulegar litlar fjárhæðir miðað við það sem Byggðastofnun er venjulega að lána. Þar sem vantar til dæmid 5 eða 10 milljónir króna til þess að koma einhverju af stað og komast yfir einhvern byrjunarhjalla. Vandinn hjá okkur hefur verið að af öllum lánsumsóknum hjá Byggðastofnun hafa konur aðeins verið um 5% umsækjenda. Þetta er það sem við erum að reyna að leiðrétta,“ segir Þóroddur. Hugmyndin sé þannig að lána út á góða viðskiptaáætlun frekar en veð.

Opnað hafi verið fyrir umsóknir í gær um lán í gegnum þessa nýju lánaleið og eru strax komnar nokkrar umsóknir að sögn Þórodds. Aðspurður segir hann lánin ekki genga gegn ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnan rétt kvenna og karla. Lánveitingin sé byggð á ákvæðum í jafnréttislögum sem heimil tímabundnar aðgerðir með það að markmiði að jafna stöðu kvenna og karla. 

„Það er bara ákveðin upphæð sett í þetta og þetta er einfaldlega átaksverkefni og tilraunaverkefni til þess að sjá hvort þetta sé fær leið til þess að skapa fjölbreyttari störf fyrir konur í dreifðari byggðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka