Tekur tíma að melta tíðindin

Frá mótmælum við innanríkisráðuneytið í fyrra til að mótmæla brottvísun …
Frá mótmælum við innanríkisráðuneytið í fyrra til að mótmæla brottvísun Tony Omos. Rax / Ragnar Axelsson

Atburðarásin í lekamálinu sem endaði með því að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra í dag er þess eðlis að tíma tekur að melta hana. Þetta segir Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Tonys Omos. Hann hefur ekki enn náð að bera skjólstæðingi sínum tíðindin.

„Fyrstu viðbrögð eru bara þau að þetta eru þannig tíðindi að það tekur smá tíma að melta þau. Það er fátt sem hægt er að segja á þessari stundu,“ segir Stefán Karl en það voru trúnaðarupplýsingar um skjólstæðing hans sem Gísli Freyr Valdórsson, þáverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, lak til fjölmiðla.

Stefán Karl hefur enn ekki haft svigrúm til að hafa samband við Omos og greina honum frá nýjustu vendingum í málinu. Spurður að því hvort að sér hafi órað fyrir því að mál Omos yrði til afsagnar ráðherra segir hann að atburðarásin hafi verið þannig að tíma þurfi til að fara yfir hana.

„Það tel ég ekki,“ segir Stefán Karl spurður að því hvort að þetta hafi einhver áhrif á mál skjólstæðings síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert