Fór óvart í kvikmyndagerð

Richard við tökur á stuttmyndinni Deadbook.
Richard við tökur á stuttmyndinni Deadbook.

Richard Scobie, sem margir þekkja sem söngvara hljómsveitarinnar Rikshaw, útskrifaðist á dögunum með fyrstu einkunn og meistaragráðu í handritaskrifum fyrir kvikmyndir og sjónvarp úr hinum virta National Film School of Ireland. Skólinn skartar ráðgefandi stjórnarmönnum á borð við Neil Jordan, Jim Sheridan, Pierce Brosnan og James Hickey svo fáeinir séu nefndir. Að sögn Richards er skólinn sjálfur í góðum tengslum við írska kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinn.

„Mér sóttist námið einstaklega vel, enda var ég í raun búin að skrifa nokkur handrit áður en ég hóf þetta nám og sú reynsla nýttist að sjálfsögðu vel. Námið er fjölbreytt og skemmtilegt og fer bæði yfir hinar ýmsu kenningar, stefnur og aðferðir auk þess að kenna ítarlega uppbyggingu handritsgerðar,“ segir Richard í samtali við mbl.is.

Sogaðist inn í fagið

Hljómsveitin Rikshaw sló í gegn á níunda áratugnum og voru þeir stundum kallaðir hinir íslensku Duran Duran. Richard segist hafa farið óvart út í kvikmyndagerð.

„Eftir að ég hætti í tónlist fór ég í nám til San Francisco og lauk þar BA-gráðu í félagsfræði og líffræði. Þá flutti ég til Los Angeles og var fenginn til að semja titillag við kvikmyndina The Suburbans, sem JJ Abrams framleiddi og skartaði þeim Will Farrell, Amy Brenneman og Jennifer Love Hewitt.  Eitt leiddi af öðru og ég sogaðist einhvern veginn inn í fagið,“ segir Richard.

Hann vann jafnframt við kvikmynd Katheryn Bigelow, The Weight of Water, og Night of the Museum með Ben Stiller svo eitthvað sé nefnt.

„Ég fór svo að fikra mig áfram með mín eigin handritaskrif sem leiddu til þess að ég er kominn á þann stað sem ég er á í dag. Ég hef einnig unnið að kvikmyndagerð, auglýsingum og tónlistarmyndböndum á Íslandi, þó svo að ég hafi mestmegnis starfað hér á Írlandi síðustu ár.“

Við útskriftina hlaut Richard hin virtu verðlaun Thesis Award for Academic Excellence frá Writers Guild of Ireland sem árlega eru veitt fyrir námsárangur og framúrskarandi handrit.

Mun leikstýra sinni fyrstu mynd í fullri lengd á næsta ári

Þar af leiðandi hlýtur Richard ævilanga aðild The Writers Guild of Ireland. „Sem verðlaunahafi nýt ég einnig stuðnings þeirra og ráðgjafar er kemur að verkefnum og samningsgerð vegna fyrirhugaðra verkefna. Það er ómetanlegt að hafa stuðning þessa sambands á bak við sig. Það ryður ekki eingöngu brautina, heldur setur það ákveðinn gæðastimpil á mig sem handritshöfund,“ segir Richard sem mun leikstýra sinni fyrstu mynd í fullri lengd strax á nýju ári.

„Sú mynd er eftir handriti eftir mig og verður tekin upp á Norður-Írlandi í samvinnu við Northern Irish Screen. Ég er reyndar stöðugt að,“ bætir Richard við og það eru orð að sönnu.

Stuttmynd sem Richard leikstýrði á síðasta ári og kallast „Deadbook“ hlaut á dögunum Van Gogh-verðlaunin fyrir bestu myndina á kvikmyndahátíðinni í Amsterdam. Richard er jafnframt með stuttmyndina „Arabella“ með kvikmyndatökumanninum Jack Conroy sem tók óskarsverðlaunamyndina „My left foot“ í eftirvinnslu þessa dagana.

„Að auki var verðlaunahandrit mitt Plan Z eiginlega gripið glóðvolgt úr höndum mér strax eftir útskrift af þekktu írsku leikstjórateymi og erum við að vinna að því að fjármagna þá mynd. Það handrit er ansi stórt og stórbrotið og krefst mikils undirbúnings áður en tökur geta hafist,“ bætir Richard við.

„Ég er einnig að vinna í sjónvarpsþáttum með einum af framleiðendum og höfundi CSI-þáttanna sem fjalla um glæpi veraldarvefsins og konu að nafni Mary Aiken. Mary Aiken er þekktur sálfræðingur sem sérhæfir sig í réttarfræði netsins. Hún starfar sem prófessor í Royal College hér á Írlandi. Saman erum við að vinna að handriti fyrir kvikmynd sem kafar djúpt í hið dökka net undirheima veraldarvefsins.“

Írar geðþekkt fólk

Undanfarin sex ár hefur Richard unnið með írska framleiðslufyrirtækinu Zanzibar Films og þar að leiðandi ákvað hann að fara í framhaldsnám til Dyflinnar.  „Framhaldsnám hafði alltaf verið á döfinni og á Írlandi er fjöldinn allur af gríðarlega góðum háskólum. Ég komst inn í framhaldsnám í félagsfræði við Trinity-háskólann en ákvað á síðustu stundu að fara frekar í nám í handritagerð og sé ég ekki eftir því,“ segir Richard.

„Við fjölskyldan búum í góðu hverfi í suðurhluta borgarinnar og héðan er einnig stutt til allra átta ef sækja þarf fundi eða vinnu annars staðar í Evrópu. Hér er gott að vera og Írar einstaklega geðþekkt fólk.“

Þessi mynd af Rikshaw birtist í Morgunblaðinu 22. desember 1985.
Þessi mynd af Rikshaw birtist í Morgunblaðinu 22. desember 1985. Skjáskot af timarit.is
Richard á útskriftardaginn.
Richard á útskriftardaginn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert