Leggja áherslu á íslenskt hráefni

Bjarni Siguróli Jakobsson, Þráinn Freyr Vigfússon, Fannar Vernharðsson, Garðar Kári …
Bjarni Siguróli Jakobsson, Þráinn Freyr Vigfússon, Fannar Vernharðsson, Garðar Kári Garðarsson, Hafsteinn Ólafsson og Viktor Örn Andrésson. mynd/Sveinbjörn Úlfarsson

Kokkalandsliðið hefur hafið þátttöku í Heimsmeistarakeppni kokkalandsliða í matreiðslu sem fram fer í Lúxemborg. Undirbúningur og æfingar hafa staðið yfir síðustu 18 mánuði.

„Við settum okkur það markmið í upphafi að enda í einhverju af fimm efstu sætunum,“ sagði Þráinn Freyr Vigfússon, fyrirliði kokkalandsliðsins, í samtali við Morgunblaðið fyrr í þessum mánuði. Besti árangur landsliðsins hingað til er sjöunda sæti en þeim árangri náði það fyrir fjórum árum.

Í dag er keppt í heitum réttum og hefur sex manna hópur úr kokkalandsliðinu sex klukkustundir til að matreiða þriggja rétta máltíð fyrir dómara og 110 gesti. Alþjóðlegur hópur dómara dæmir í keppninni þar sem meðal annars er tekið mið af bragði, útliti, samsetningu, hráefnisvali og fagmennsku við undirbúning og matargerð, að því er segir í tilkynningu. 

Þá kemur fram að kokkalandsliðið leggi áherslu á að nota sem mest af íslensku hágæðahráefni í matargerðina sem var sérstaklega flutt á keppnisstað.

Á matseðli liðsins eru þessi réttir:  

Forréttur: Hægeldaður íslenskur þorskur og pönnusteiktur humar, framreiddur með epla- og jarðskokkasalati, agúrku, kínóa, skelfisksósu og dill-sinneps-vinaigrette.

Aðalréttur: Grilluð íslensk lambamjöðm með vel elduðum lambaskanka og -tungu. Framreidd með seljurót, kartöflu- og sveppakrókettu, gljáðum gulrótum og perlulauk, rósakáli, baunum ásamt blóðbergs-lambasósu með sveppum.

Eftirréttur: Jarðarberja- og jógúrtmús með dökkum súkkulaðitoppi ásamt skyr-ís, möndlu-karamelluköku, þeyttum sýrðum rjóma, jarðarberjum og jarðarberjasósu.

Búist við 45.000 gestum

Á keppnisstað eru nokkur fullbúin eldhús fyrir landsliðin þar sem keppt er á hverjum degi í fimm daga. Keppt er um gull-, silfur- og bronsverðlaun. Landsliðin frá Sviss, Hollandi, Ítalíu, Kýpur og Suður-Kóreu keppa í dag á sama tíma og íslenska landsliðið. Alls eru landslið frá 56 löndum sem keppa í nokkrum keppnum. Búist er við hátt í 45.000 gestum í keppnishöllina meðan á keppninni stendur. Gestir hafa möguleika á að sjá inn í eldhús landsliðanna og fylgjast með kokkunum að störfum.

Í kokkalandsliðinu eru: Hafliði Halldórsson framkvæmdastjóri liðsins, Þráinn Freyr Vigfússon fyrirliði Lava Bláa lóninu, Viktor Örn Andrésson liðsstjóri Lava Bláa lóninu, Fannar Vernharðsson VOX, Bjarni Siguróli Jakobsson Slippbarnum, Ylfa Helgadóttir Kopar, Hafsteinn Ólafsson Apótekinu, Axel Clausen Fiskmarkaðnum, Garðar Kári Garðarsson Strikinu, Daníel Cochran Kolabrautinni, Ari Þór Gunnarsson Fiskfélaginu, Hrafnkell Sigríðarson Bunk Bar og María Shramko sykurskreytingarmeistari.

Hægt er að fylgjast með kokkalandsliðinu á vefsíðu liðsins www.kokkalandslidid.is og samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram @icelandicculinaryteam og Twitter @kokkalandslidid.

Á keppnisstað eru nokkur fullbúin eldhús fyrir landsliðin þar sem …
Á keppnisstað eru nokkur fullbúin eldhús fyrir landsliðin þar sem keppt er á hverjum degi í fimm daga. Keppt er um gull, silfur og brons verðlaun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert