Tilbrigðaríkur himinn í haustblíðunni

Skýin á hausthimninum og sígandi sólin skapa dularfullar stemningu í …
Skýin á hausthimninum og sígandi sólin skapa dularfullar stemningu í Öskjuhlíðinni. Perlan er eins og geimstöð sem getur farið í hugmyndaflugi um himingeiminn. mbl.is/Árni Sæberg

Óvenjuleg hlýindi hafa gælt við landsmenn það sem af er nóvember. Hitastigið hefur verið yfir meðallagi og jafnvel náð tíu stigum í plús dag eftir dag, sem er óvenjulegt fyrir þennan árstíma. Um leið og við njótum venju fremur mikilla hlýinda með rigningu af og til geisar harður vetur vestur í Bandaríkjunum.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði horfur á áframhaldandi hlýindum næstu vikuna. Dagarnir yrðu að vísu mishlýir en hiti ætti að verða yfir meðallagi flesta daga. Reikna má með örlítið svalara veðri á sunnudaginn kemur, en samt verður hlýtt miðað við árstíma.

Eftir helgina er búist við enn meira af hlýju lofti úr suðri og að hiti verði vel yfir meðallagi, samkvæmt veðurspá. Reikna má með umhleypingum í næstu viku og að það verði suðlægar áttir, úrkomusamt og yfirleitt hlýtt. Þetta má þakka lægðum sem bera til okkar hlýtt loft úr suðri. Inn á milli kemur aðeins kaldara loft með éljum.

Trausti Jónsson veðurfræðingur spurði í bloggi sínu (trj.blog.is) 18. nóvember sl. hvort það stefndi í hlýjan nóvember. Þá voru lengstu veðurspár farnar að teygja sig nánast til loka mánaðarins og sýndu þær að minnsta kosti ekki mikla kulda.

Trausti benti á að meðalhiti nóvember í Reykjavík síðustu tíu ár hefði verið um 2,2 stig. Til 18. nóvember hafði meðalhitinn verið um 5 stig í höfuðborginni. Trausti sagði að nóvember væri ekki oft hlýrri en það. Hann taldi ólíklegt að svo hlýtt héldist út mánuðinn en taldi góða von um 3-4 stig. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert