Ekki þurfi að efast um umboð

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Samskipti lögreglustjóra eru við alla starfsmenn ráðuneytis án tillits til stöðu þeirra innan ráðuneytisins. Það ræðst af efni hvers erindis hver starfsmanna ráðuneytis er í samskiptum við lögreglustjóra. Í þessum samskiptum hefur það aldrei gerst að þurft hafi að efast um heimild starfsmanns ráðuneytis til að eiga í samskiptum við lögreglustjóra eða heldur að þau hafi með réttum hætti farið í skjalasafn ráðuneytisins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn Lögreglustjórafélags Íslands en tilefnið eru fréttir að undanförnu um það hvort Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum og núverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, hafi verið heimilt að senda greinargerð um mál hælisleitanda til þáverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra sem dæmdur var nýverið í skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka gögnum um málið til fjölmiðla.

Fram kemur í tilkynningunni að þetta eigi bæði við um embættismenn ráðuneytis og aðstoðarmenn ráðherra. „Lögreglustjórar líta einfaldlega svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna ráðuneytis til samskipta við lögreglustjóra.

Fréttatilkynningin í heild:

„Í fréttum undanfarna daga um greinargerð, sem þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum sendi fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra um málefni hælisleitanda, hefur á því borið að samskipti lögreglustjórans og aðstoðarmannsins vegna greinargerðarinnar hafa verið gerð tortryggileg. Er það gert með því að láta að því liggja að lögreglustjórinn beri með einhverjum hætti ábyrgð á aðkomu aðstoðarmannsins og því að hann vistaði ekki minnisblaðið í skjalasafni ráðuneytisins. Af þessu tilefni vill stjórn Lögreglustjórafélags Íslands koma eftirfarandi á framfæri.

Samskipti lögreglustjóra og ráðuneytis hafa verið og eru mikil; bæði formleg, s.s. með bréfum, og óformleg, s.s. með símtölum, og snerta þau samskipti alla þætti í starfsemi lögregluembætta, sem undir ráðherra falla.

Samskipti lögreglustjóra eru við alla starfsmenn ráðuneytis án tillits til stöðu þeirra innan ráðuneytisins. Það ræðst af efni hvers erindis hver starfsmanna ráðuneytis er í samskiptum við lögreglustjóra. Í þessum samskiptum hefur það aldrei gerst að þurft hafi að efast um heimild starfsmanns ráðuneytis til að eiga í samskiptum við lögreglustjóra eða heldur að þau hafi með réttum hætti farið í skjalasafn ráðuneytisins. Á þetta bæði við um embættismenn ráðuneytis og aðstoðarmenn ráðherra. Lögreglustjórar líta einfaldlega svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna ráðuneytis til samskipta við lögreglustjóra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert