Fólk og snjallsímar í aðalhlutverki

Landsnefnd UN Women á Íslandi skorar á almenning að sýna samstöðu gegn kynbundnu ofbeldi og taka þátt í að skapa ógleymanlega stund með þátttöku í verkinu Skínalda eftir listakonuna Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur. Gjörningurinn fer fram á Klambratúni á morgun 25. nóvember klukkan 17.15 á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi þar sem samspil ljóss, tóna og fólks verður í aðalhlutverki. Gjörningurinn er einnig liður í átaki UN Women á Íslandi „Örugg borg“.

„Í krafti fjöldans munum við búa til ljósaspíral þar sem við sendum frá okkur skilaboð út í samfélagið og heim allan um að breytingar séu mögulegar,“ er haft eftir Ingu Dóru Pétursdóttur framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, í fréttatilkynningu.

Mæting er á Klambratún í Reykjavík þriðjudaginn 25. nóvember kl. 17.15.  „Fólk er hvatt til þess að koma með ljósgjafa eins og snjallsíma, vasaljós eða kerti svo að ljósið verði sem skærast. Lýsum upp Klambratúnið og sendum þau skilaboð út að ofbeldi gegn konum verður ekki umborið,“ segir Inga Dóra jafnframt. Loftmynd verður tekin af verkinu og mun stundin því lifa áfram.

Flutningstími verksins er 10 mínútur og verður boðið upp á kakó að því loknu. Unnur Ösp Stefánsdóttir  leikkona og verndari UN Women á Íslandi mun flytja ávarp á viðburðinum. Loftmynd verður tekin af verkinu og mun stundin því lifa áfram.

Reykjavík mun taka þátt í átaki UN Women er nefnist Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) og skuldbindur sig til að vinna markvisst að auknu öryggi kvenna, stúlkna og barna í opinberum rýmum borgarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifar undir samstarfsyfirlýsingu á Kjarvalsstöðum klukkan 17.00.

UN Women á Íslandi hvetur fjölskyldur að mæta og sýna samstöðu gegn kynbundnu ofbeldi.

Síminn og Reykjavíkurborg styrkja verkefnið.

Facebook-síða verkefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert