„Fullkomlega ólöglegur gjörningur“

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, við malarplanið síðdegis. Þar …
Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, við malarplanið síðdegis. Þar sést glitta í asbestið mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Asbestúrgangur fannst grafinn undir malarplani á iðnaðarsvæði á Akureyri í síðustu viku. Ekki liggur fyrir hver skildi asbestið eftir á lóðinni sem tilheyrir Akureyrarbæ, en talið er að það gæti hafa legið þarna mánuðum saman. Asbest er heilsuspillandi og er málið litið alvarlegum augum.

Glöggur starfsmaður kom auga á efnið grafið í jörð skammt frá athafnasvæði Íslenska gámafélagsins við Réttarhvamm á Akureyri í síðustu viku. Þann 19. nóvember fóru starfsmenn frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Vinnueftirlitinu á staðinn auk lögreglu.

Óljóst er um hversu mikið magn er að ræða en sérhæfður verktaki hefur verið kallaður til að fjarlægja asbestið, en til stóð að vinna verkið í dag að sögn heilbrigðisfulltrúa á Akureyri.

Hættulegt heilsu fólks

Á vef Vinnueftirlitsins kemur fram, að koma þurfi með öllum ráðum í veg fyrir að asbestryk myndist á vinnusvæðum enda sé það hættulegt heilsu fólks. Þegar fólk andar að sér asbestryki getur það valdið steinlunga (asbestosis) og krabbameinum í lungum, fleiðruþekju og víðar. Ekki er vitað um neina lækningu á þessum sjúkdómum.

Þann 1. janúar 2005 gekk í gildi allsherjarbann við notkun asbests á Evrópska efnahagssvæðinu. Í dag er því bannað að flytja inn, framleiða eða nota asbest og því er raun eina leyfða starfssemin með asbest sú að fjarlægja það eða farga því ásamt því að sinna nauðsynlegu viðhaldi.

Ekki vitað hver skildi asbestið eftir

Gunnar Jóhannsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Akureyri, segir í samtali við mbl.is, að ekki sé vitað hver eða hverjir hafi skilið asbestið eftir.

„Það er með þetta eins og margt annað, að það man enginn neitt, veit enginn neitt og sá ekki neitt,“ segir Gunnar. Hann segir að þarna sé um að ræða asbestplötur og jafnvel sé talið að þær hafi legið þarna í lengri tíma. „Jafnvel einhverja mánuði,“ segir Gunnar og bætir við að ekki hafi tekist að hafa uppi á þeim sem skildu asbestið eftir.

„Þetta asbest er talið baneitrað, mengandi og heilsuspillandi. Það eru sérstakar reglur sem gilda um förgun þess,“ segir Gunnar og bætir við að það kosti að farga asbesti. „Einstaklingar sem þurfa að farga þessu reyna kannski að komast fram hjá því einhvernveginn. Spara sér fé tíma og fyrirhöfn og lauma þessu hingað og þangað.“

Hulið með möl

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, segir í samtali við mbl.is, að asbestið liggi á svæði sem tilheyri Akureyrarbæ. „Á einhverjum tímapunkti var útbúið malarplan þarna og asbestið hafði þá verið hulið með möl. Það er enginn sem kannast við að eiga þetta asbest eða hafa lagt það á þennan stað,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Alfreð segir að athugull verktaki, sem var við girðingarvinnu, hafi séð glitta í asbest í malarkanti í síðustu viku og gerði viðvart. Þá hófst strax vinna við að skipuleggja hvernig best væri að fjarlægja þetta.

Hann segir ennfremur, að svo virðist sem að verktakinn sem lagði mölina og útbjó malarplanið hafi ekki gert sér grein fyrir því um hvers konar úrgang væri að ræða. „Auðvitað má gagnrýna hann þá fyrir það fyrir að hafa ekki kannað málið nánar,“ segir Alfreð en bætir við að talið sé að megnið af planinu hafi verið lagt í snjó síðasta vetur og þá hafi menn átt erfiðara með að átta sig á því sem lá þar undir.

Ólöglegt og gert í óleyfi

„Nú veit maður ekki hvort það hafi verið einhver vanþekking þarna að baki eða hvort þetta er brotavilji að losa sig við spilliefni, sem er dýrt í förgun, á einfaldan hátt. Sem væri mjög slæmt ef svo væri,“ segir hann og bætir við: „Þetta er að sjálfsögðu í óleyfi því þetta er fullkomlega ólöglegur gjörningur og mjög vont mál,“ segir Alfreð sem lítur málið alvarlegum augum.

Hvað magnið varðar segir hann: „Það gæti verið talsvert magn þarna undir og alveg frá því fyrir þann tíma að það var unnið þarna malarplan síðastliðinn vetur. Svo gæti þetta líka verið rétt í sporðinum á malarfyllingunni og þá til að gera nýlega til komið,“ segir Alfreð og bætir við að málið sé í rannsókn.

„Þetta er svokallað hart asbest þannig að það rýkur lítið úr. Það er tiltölulega auðvelt viðureignar en engu að síður þurfa starfsmenn sem koma að þessu að vera varðir, gallaðir og með grímur,“ segir hann. Vinnueftirlitið hefur verið heilbrigðiseftirlitinu innan handar við að leiðbeina um verkið svo það verði fjarlægt á sem öruggastan hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert