Loftræstikerfi líklegur sökudólgur

Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hófust fyrir um tveimur árum og er …
Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hófust fyrir um tveimur árum og er áætlað að þau opni árið 2016.

„Þetta dálítið ágengur fjarlægur niður,“ segir Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, um dularfullt hljóð sem hefur truflað nætursvefn íbúa á Akureyri undanfarnar vikur. Alfreð segir að loftræstikerfi Vaðlaheiðarganga sé langlíklegasti sökudólgurinn.

Nokkrar ábendingar hafa borist heilbrigðiseftirlitinu vegna þessa að undanförnu að sögn Alfreðs.

Aðspurður segir hann að það standi til að endurnýja loftræstikerfi ganganna. „Það verður tekið nýtt kerfi í gagnið í byrjun árs. Þetta verk er í undirbúningi,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við að menn vonist til þess að nýja kerfið verði mun hljóðlátara. Annars þyrfti að grípa til annarra ráðstafana, t.d. að beina hljóðinu í aðra átt eða dempa það á staðnum. 

Ótal hljóðuppsprettur

„Auðvitað eru alveg ótal hljóðuppsprettur í bænum, en þetta [hljóðið sem loftræstikerfið gefur frá sér] er þessi viðbót sem við tengjum við þessar kvartanir. Hávaði í stillu og áberandi seint á kvöldin þegar umferðarhávaðinn dettur niður,“ Alfreð og bætir við að um leið og það bæti í vind þá berist lítið eða ekkert hljóð yfir til bæjarins frá göngunum.

Alfreð tekur fram að ábendingar um undarleg næturhljóð hafi borist til eftirlitsins áður en framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hófust.

„Einstaka aðilar heyrðu eitthvert hljóð áður en vinna við göngin byrjaði, en þá væntanlega hlýtur það að vera eitthvað allt annað,“ segir Alfreð og bætir við að hávaði sem berst t.d. frá frystum og kælipressum geti valdið ónæði í næsta nágrenni við búnaðinn.

„Í öllum stórum húsum eru meira eða minna loftræstikerfi sem gefa frá sér hávaða og alls kyns atvinnustarfsemi gefur frá sér hávaða, spennistöðvar og hitt og þetta,“ segir hann ennfremur. 

Dularfulla hljóðið heyrist á ný

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert