Mikilvægt að Hanna Birna mæti

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra.

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og efnahagsnefndar Alþingis telur æskilegt og mikilvægt að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra, þekkist boð nefndarinnar um að koma á fund hennar og svari þar spurningum.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í þessum mánuði stóð til að boða bæði Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis, og Hönnu Birnu á fund nefndarinnar þegar fyrirhugað álit umboðsmanns lægi fyrir.

Sýna átti frá fundinum í beinni útsendingu en þar átti að greina frá niðurstöðu umboðsmanns og gefa nefndarmönnum kost á að spyrja Tryggva út í ýmsa þætti rannsóknarinnar. Í kjölfarið stóð til að boða Hönnu Birnu á fund nefndarinnar á sömu forsendum en þá átti einnig að spyrja hana um þætti er varða samskipti hennar við Alþingi.

„Eftir sem áður tel ég æskilegt og reyndar mikilvægt, bæði fyrir þingið og ráðherrann, að þessi háttur yrði hafður á en sú grundvallarbreyting hefur orðið með afsögn ráðherrans að nefndin hefur ekki lagalegur forsendur til að krefjast viðveru ráðherra. En eftir stendur að hún gæti þekkst boð nefndarinnar um að koma á fund og þá hreinsa upp ýmislegt sem mönnum þykir orka mjög tvímælis,“ segir Ögmundur.

„Við höfum fram til þess vilja halda að okkur höndum þangað til að umboðsmaður lyki sinni vinnu. Henni er ekki lokið og við stöndum við það sem áður hefur verið, að bíða átekta og fá niðurstöður umboðsmanns. Síðan munum við ráða ráðum okkar sameiginlega á vettvangi nefndarinnar.“

Að sögn Ögmundar hefur þessi breytta staða ekki verið rædd formlega á fundi nefndarinnar.

Tryggvi og Hanna Birna boðuð á fund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert