Mikilvægt að matvara sé ódýr á Íslandi

mbl.is/G.Rúnar

„Ég er enn á þeirri skoðun að það sé betra í alla staði fyrir þjóðfélagið að hér sé ódýrt að lifa,“ segir Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurð út í viðbrögð stjórnvalda vegna þeirrar gagnrýni sem hafi komið fram vegna hækkunar á matarskatti. 

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að stjórnvöld séu nú að ræða um 11% skatt á mat í stað 12%.

Bryndís segir ánægjulegt að tillit sé tekið til þeirrar gagnrýni sem hafi komið fram en það sé „ennþá verið að halda í átt sem mér hugnast ekki.“

Hér sé hægstætt að lifa

Það vakti athygli þegar Bryndís stofnaði hóp á Facebook undir yfirskriftinni Verjum 7% matarskatt, en þar var ríkisstjórnin hvött til að falla frá fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskattskerfinu. Samflokksmenn hennar, m.a. þingmaðurinn Brynjar Níelsson, gagnrýndu Bryndísi fyrir þetta. ASÍ hefur nú tekið við Facebooksíðunni.

„Ég vil að hér sé hagstætt að lifa og í því felist tækifærin en ekki að búa til umhverfi hérna þar sem dýrt er að lifa og jafna það svo út með bótum. Það tel ég ekki í anda stefnu míns flokks,“ segir Bryndís.

Það sé mikilvægt að matvara sé ódýr hér á landi. „Sé dýrt að lifa þá er svo erfitt um vik. Það er erfitt um vik fyrir fólk að lifa ódýrt um stundarsakir á meðan það er að setja eitthvað á stofn [t.d. fyrirtæki]  eða takast á við persónuleg vandamál,“ segir hún jafnframt.

Lækkun lyfjaverðs stórmál sem beri að fagna

Hún tekur fram, að hún fagni áætlun um að fella niður vörugjöld og lækka efra virðisaukaskattsþrepið. Það eigi eftir að koma til með að efla atvinnulífið. „Þar erum við algjörlega á hárréttri leið,“ segir hún.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði um helgina að með fyrirhuguðum skattkerfisbreytingunum muni m.a. nauðsynleg lyf lækka í verði. „Það er frábært og stórmál fyrir heilbrigðiskerfið og rekstur spítalanna. Það hlýtur að vera - ég gef mér það,“ segir Bryndís. 

Bryndís Loftsdóttir.
Bryndís Loftsdóttir. ljósmynd/Johann Pall Valdimarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert