Ferðaþjónustan leggst gegn náttúrupassa

Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur.
Ferðamenn í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök ferðaþjónustunnar leggjast gegn náttúrupassa sem seldur yrði ferðamönnum. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins en stjórnvöld hafa kynnt áform um að taka í notkun náttúrupassa og tekjur af honum nýttar til þess að sinna viðhaldi ferðamannastaða. Fundað var um málið á vegum samtakanna í gær.

Fram kom í fréttinni að Samtök ferðaþjónustunnar hefðu í hyggju að þrýsta á Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að leita annarra leiða til tekjuöflunar. Til að mynda er lögð til hækkun á gistináttaskatti. Ennfremur sagði í fréttinni að fyrirtækjum í ferðaþjónustu hugnast illa frekari gjaldtaka á ferðamenn. Slík innheimta og eftirlit með henni gæti haft neikvæð áhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert