Áframhaldandi hlýindi næstu daga

Það er kannski ekki alveg svona veður, en næstum því.
Það er kannski ekki alveg svona veður, en næstum því. mbl.is/Styrmir Kári

Trausti Jónsson veðurfræðingur skrifar í færslu á bloggsíðu sína að allt útlit sé fyrir að lægð sunnan við landið viðhaldi þeim undarlegu hlýindum sem hafa verið á landinu undanfarnar vikur.

Einhvern veginn hefði maður haldið að næsta lægð stefndi beint í átt til landsins ofan í útsynninginn í dag (þriðjudag 25. nóvember). - Reyndar var þetta heldur aumur útsynningur - en sýndi þó mjög fallega klakka og stöku él - og að sögn fáeinar þrumur líka,“ segir Trausti í færslunni.

Hann heldur áfram:  „Landið er í mjög hægum suðlægum vindi.“ Á mynd sem Trausti birtir í færslunni má sjá umrædda lægð. „Hún gerir sig líklega - finnst manni - til að fara til austurs ekki langt fyrir sunnan land - nema hvað - hún á að taka strikið beint suðaustur til Spánar.“

Við það mun hlýtt loft berast til landsins úr suðaustri, „sem er svo sem ekki amalegt,“ skrifar Trausti. Við það aukast að sögn Trausta enn líkurnar á því að nóvember sem er að líða verði sá hlýjasti um langt skeið, þó svo hann verði ólíklega sá hlýjasti:

„Í augnablikinu er meðalhiti 5,7 stig í Reykjavík, var 6,0 sömu daga 1956 - sá mánuður hrapaði niður í 5,0 á síðasta sprettinum. En fyrsta sætið er varla innan seilingar - sömu dagar í nóvember 1945 eiga meðalhitann 7,1 stig - en hann endaði stigi neðar.“

Bloggfærsla Trausta

Nánar á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert