Bílar runnu af stað í veltingnum

Tjón varð á sex bílum um borð í skipinu í …
Tjón varð á sex bílum um borð í skipinu í gær þegar þrír þeirra runnu á gagnstæða bíla. Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta var aðallega nudd, smá rispur og eflaust einhverjar beyglur,“ segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, um tjón sem varð á sex bílum um borð í skipinu í gær þegar þrír þeirra runnu á gagnstæða bíla í miklum veltingi.

„Þetta var tiltölulega lítið en engu að síður óþægilegt og leiðinlegt fyrir farþegana. Það er það sem er aðallega að trufla mann,“ segir Gunnlaugur. „Bílarnir voru vel tjóðraðir en þegar veltingurinn er svona mikill getur það gerst að festingin heldur ekki. Hallinn á skipinu var mikill og þá hafa þeir farið af stað þessir bílar.“

Stjórnbúnaðurinn í veltiuggum skipsins biluðu fyrir um mánuði síðan, en nýr búnaður barst í lok síðustu viku og var þá strax farið í það að skipta um hann. Þetta getur tekið um viku til tíu daga og eru veltiuggarnir óstarfhæfir á meðan. Þetta gerir það að verkum að uggarnir dempa ölduna ekki eins og þeir gera við eðlilegar aðstæður og er veltingurinn því mikill.

Herjólf­ur sigl­ir nú til Þor­láks­hafn­ar þar sem Land­eyja­höfn hef­ur verið ófær síðastliðna daga og vegna vinnunar við viðgerðina á veltiuggunum siglir skipið aðeins eina ferð á dag.

Að sögn Gunnlaugs er skipið öruggt þrátt fyrir þetta, en veltur þó mikið og getur fólk orðið mjög sjóveikt. „Fyllsta öryggis er þó alltaf gætt og það er engin hætta fyrir farþega. Eignatjónið er þó ferlega leiðinlegt,“ segir hann.

Aðspurður segir hann erfitt að fyrirbyggja slíkt tjón, öðruvísi en að taka enga bíla um borð. „En við erum búin að vera að sigla í Þorlákshöfn við erfiðar aðstæður síðan á fimmtudaginn í síðustu viku og það hefur allt gengið prýðilega þangað til í gær.“

Í tilkynningu á vef Herjólfs er farþegum bent á það að mikill veltingur geti verið um borð og því sé rétt að skoða vel ölduspá, sérstaklega áður en lagt er í sjóferð með börn. Gunnlaugur segir fólk mjög upplýst og meðvitað um þetta. „Við erum háð samgöngum í sjó og það er allra veðra von. En sem betur fer er þetta árstíðabundið og þegar flestir eru að koma á sumrin eru aðstæðurnar prýðilegar en stundum er þetta erfitt á veturna.“

Frétt mbl.is: Tjón á bílum í Herjólfi

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs.
Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert