Fyrsta greiðslan úr séreignasparnaði þeirra sem sóttu um að ráðstafa honum til niðurgreiðslu á höfuðstóli húsnæðislána fer fram í lok vikunnar. Mun niðurgreiðslan hafa áhrif á afborgun lánsins um mánaðamótin desember/janúar.
Lántakendur sjá innborgunina því ekki á greiðsluseðlinum um næstu mánaðamót en gert er ráð fyrir að lánið verði uppfært í heimabönkum í samræmi við upphæðina á næstu dögum, eða um 1 til 2 dögum eftir að innborgunin er framkvæmd. Þetta segir Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána. Aðspurður segir hann að reynt hefði verið að greiða séreignasparnaðinn inn á lánin fyrir 18. nóvember sl. til að greiðslan myndi hafa áhrif á afborganir um næstu mánaðamót. „Það hafðist hins vegar ekki,“ segir Tryggvi.
Um 24 þúsund manns sóttu um óskerta greiðslu til að ráðstafa séreignasparnaði til greiðslu húsnæðislána eða húsnæðissparnaðar. Skilyrði fyrir leiðréttingu er að lánin séu tryggð með veði í íbúðarhúsnæði og að þau séu jafnframt grundvöllur til útreiknings vaxtarbóta. Í báðum tilfellum er um að ræða tímabundin skattfrjáls úrræði til þriggja ára er varða greiðslu iðgjalda inn á lán, en fimm ár er varða húsnæðissparnað.
Hámarksfjárhæð sparnaðarins sem hægt var að ráðstafa er samtals 500 þúsund krónur á ári á hvern einstakling og þannig samtals 1,5 milljónir króna á þremur árum. Upphæðin er hins vegar 750 þúsund krónur á hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar og því samtals 2,25 miljónir króna á þremur árum. Gildistíminn takmarkast við þau iðgjöld sem greidd eru vegna launatímabilsins 1. júlí 2014 til 30. júní 2017.