Ellefu sagt upp á Hvolsvelli

Ellefu hefur verið sagt upp störfum á saumastofu Glófa á …
Ellefu hefur verið sagt upp störfum á saumastofu Glófa á Hvolsvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Ellefu starfsmönnum í 9,5 stöðugildum hefur verið sagt upp störfum hjá framleiðslufyrirtækinu Glófa ehf. Um er að ræða störf á saumastofu Glófa á Hvolsvelli, þar sem framleiddar eru vörur fyrir heildsala í Þýskalandi, en ástæða uppsagnanna er verkefnaskortur.

„Við höfum verið að framleiða fyrir þýskan aðila á Hvolsvelli og það hefur orðið hrun í pöntunum frá honum,“ segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Glófa, sem sérhæfir sig í framleiðslu prjónafatnaðar.

Páll segir að mögulegt að rekja megi minnkandi eftirspurn eftir ullarvörum prjónastofunnar til hlýrra haustveðurs í Þýskalandi en gengur og gerist. Í fyrra hljóðuðu pantanir frá viðkomandi aðila upp á 11 þúsund ullarpeysur, en í ár er útlit fyrir að peysurnar verði ekki nema um 7 þúsund.

Staðan er sú að engar pantanir hafa borist fyrir janúar og febrúar, og að óbreyttu lætur starfsfólk saumastofunnar af störfum í lok febrúar. Páll segir umskiptin hafa komið öllum á óvart. „Við erum búin að vera í stöðugri aukningu í framleiðslu fyrir hann í þrjú ár,“ segir Páll um heildsalan þýska.

Hann segir þó um bráðabirgðaráðstöfun að ræða og vonast til að geta ráðið starfsfólkið aftur. „Við vorum að gera nýja vörulínu fyrir þennan aðila, haustlínuna 2015, núna í október og hann er byrjaður að kynna hana og fer með hana á sýningu í janúar. Eftir þá sýningu sjáum við hvort við erum að fá pantanir sem nægja til að halda þessu áfram,“ segir hann.

Auk saumastofunnar á Hvolsvelli rekur Glófi sauma- og prjónastofur í Reykjavík og á Akureyri. Páll segir fyrirtækið í vexti og það hafi m.a. tryggt sér spennandi verkefni á Norðurlöndunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert