Landhelgisgæslan fær 200 milljónir

Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal þess sem fram kemur í tillögum fjármálaráðuneytisins að breytingum á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er að framlag til Landhelgisgæslunnar verði aukið um 200 milljónir. Framlagið er hugsað til þess að styrkja rekstur stofnunarinnar að sögn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins og formanns fjárlaganefndar Alþingis.

„Landhelgisgæslan var náttúrulega skorin algerlega niður fyrir þolmörk á síðasta kjörtímabili sem leiddi til þess að hún sá sig knúna til þess meðal annars að leigja erlendum aðilum tæki sín og tól. En þetta er fyrsta skrefið í þá átt að endurreisa Landhelgisgæsluna,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is. Einnig eru framlög meðal annars til heilbrigðismála og menntamála aukin verulega samkvæmt breytingartillögunum.

„Þannig að við erum að standa við það bæði í þessu fjárlagafrumvarpi og því síðasta að efla grunnstoðirnar sem er þvert á það sem fyrri ríkisstjórn gerði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert