Vill Sigga hakkara í 2 ára fangelsi

Siggi hakkari í héraðsdómi Reykjaness.
Siggi hakkari í héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Árni Sæberg

Saksóknari í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn Sigurði Inga Þórðarsyni, Sigga hakkara, krefst þess að Héraðsdómur Reykjaness dæmi hann í tveggja ára fangelsi. Sagði hann að réttarvitund almennings yrði gróflega misboðið hlyti hann vægari refsingu fyrir brot sín.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag játaði Sigurður Ingi sök í málinu en hann var ákærður fyrir fjársvik og þjófnaði upp en alls nem­ur upp­hæðin um þrjá­tíu millj­ón­um króna. Í kjölfarið fluttu saksóknari og verjandi Sigurðar Inga ræður um refsingu og bótakröfur.

Saksóknari sagði að við ákvörðun refsingar þurfi að líta til þess að brotavilji Sigurðar Inga hafi verið einbeittur og skýr. Hann hafi dregið fórnarlömb sín á asnaeyrunum og í einhverjum tilvikum haft af þeim aleiguna. Brotin hafi verið framin á tveggja ára tímabili og beri atferli hans merki um siðleysi. Vísaði hann einnig í geðmat en í því kemur fram að Sigurður Ingi sé siðblindur, hömlulaus og að hann hafi litla sem enga sektarkennd. Það ætti hins vegar ekki að leiða til refsilækkunar enda verði siðblindingjar seint læknaðir.

Hann sagði kröfu um tveggja ára fangelsi hóflega, en með henni er tekið fullt tillit til ungs aldurs Sigurðar Inga þegar brotin voru framin og þess að hann játaði sök.

Telur 18 mánuði hæfilegt

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Sigurðar Inga, sagðist telja hæfilegt að skjólstæðingur sinn verði dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir þau brot sem hann játaði. Horfa verði til þess að hann játaði skýlaust og beri að njóta þess. Þá megi líta til geðmatsins en samkvæmt því sé greinilegt að Sigurður Ingi eigi við geðsjúkdóm að stríða.

Hvað varðar bótakröfurnar mótmælti Vilhjálmur þeim sem of háum og krafðist verulegrar lækkunar. Að öðru leyti lagði hann það í mat dómsins að ákvarða bætur í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert