Börnin festast í vítahring lyga

Langflestir sem leita til Hjálparstarfs kirkjunnar koma aðeins í kringum …
Langflestir sem leita til Hjálparstarfs kirkjunnar koma aðeins í kringum jólin. Ernir Eyjólfsson

Börn foreldra og forsjáraðila sem hafa lítið á milli handanna festast stundum í vítahring lyga í desembermánuði þegar jólasveinanir fara á stjá.

Þau fá ef til vill mandarínu eða sleikjó í skóinn en önnur börn stærri og dýrari gjafir og grípa þau þá til lygi til að geta tekið þátt í umræðunni.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Vilborgar Oddsdóttur, félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, á morgunverðarfundi samtakanna Náum áttum í gær.

Flestir þiggja aðstoð um jólin

Langflestir sem leita til Hjálparstarfs kirkjunnar koma aðeins í kringum jólin. Í fyrra fengu 2181 manns aðstoð og komu skjólstæðingarnir í 4855 skipti eða að meðaltali 2,2 sinnum.

Stærsti hópurinn er öryrkjar sem einnig er fjölskyldufólk. Flestir sem leita aðstoðar eru á almennum leigumarkaði og á aldrinum 31 til 40 ára. Þá eru flestir þeirra sem leita til Hjálparstarfsins búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

1450 manns fengu aðstoð um síðustu jól. Langflestir voru á aldrinum 20 ára og upp í fertugt. Flestir, 61%, bjuggu á höfuðborgarsvæðinu en næstflestir á Norðausturlandi, 20%. 775 þeirra voru einstæðir foreldrar.

Börn meistarar í að leyna sorginni

Börn foreldra og forsjáraðila sem hafa lítið á milli handanna festast stundum í lygavef í desembermánuði þegar jólasveinanir fara á stjá. Þau fá ef til vill mandarínu eða sleikjó í skólinn en önnur börn stærri og dýrari gjafir og grípa þau þá til lygi til að geta tekið þátt í umræðunni. Þá kemur einnig fyrir að börnin grípi til þess að slá eða meiða næsta barn til þess að draga athyglina frá umræðunni. 

Síðastliðin ár hefur verið boðið upp á að setja gjafir undir jólatré í verslunarmiðstöðvum og fara gjafirnar meðal annars til hjálparstarfsins sem deila þeim út til skjólstæðinga sinna.

Sagði Vilborg að foreldrar kaupi oft frekar nytsamlega hluti á borð við fatnað og skó, hafi þau ráð á, en fá hinar gjafirnar til dæmis hjá hjálparstarfinu. Sjaldan berist þó gjafir fyrir unglingsdrengi, oftar fyrir yngri stúlkur. 

Sagði Vilborg einnig að þær gjafir sem settar eru undir trén séu yfirleitt alls ekki stórar ef miðað er við spjaldtölvurnar, enda hafi þjóðin ekki endilega mikið á milli handanna til að kaupa og setja undir trén.

Börnin vonist til að fá eitthvað stærra eins og „hin“ börnin um jólin en þau eru meistarar í að leyna sorginni og láta ekki á henni bera, sagði Vilborg. 

Finnst þau ekki sinna skyldum sínum sem foreldrar

Að sögn Vilborgar neita margir þeirra, sem leita til Hjálparstarfsins árið um kring, sér um marga hluti svo þau geti gert meira fyrir börnin sín. Nefndi hún sem dæmi klippingu og heimsókn til tannlæknis.

Sagði hún einnig að skjólstæðingar hjálparstarfsins nefndu einnig að þeim fyndist þeir ekki sinna skyldum sínum sem foreldrar, veiti þeir barni sínu ekki hitt og þetta sem önnur börn fá.

„Árið um kring þarf að verjast þessum viðmiðum og markaðsöflum,“ sagði Vilborg. „Það dregur úr gleðinni að vera alltaf að miða sig við eitthvað sem þú nærð ekki.“

Jólin ekki hátíð allra barna

Börn foreldra og forsjáraðila sem hafa lítið á milli handanna …
Börn foreldra og forsjáraðila sem hafa lítið á milli handanna festast stundum í lygavef í desembermánuði þegar jólasveinarnir fara á stjá. Kristinn Ingvarsson
Börnin vonast til að fá eitthvað stærra eins og „hin“ …
Börnin vonast til að fá eitthvað stærra eins og „hin“ börnin um jólin en þau eru meistarar í að leyna sorginni og láta ekki á henni bera. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert